Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 06. mars 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Tók nokkra fundi en valdi FH - „Miða alltaf á að vera markahæstur"
Sigurður Bjartur í leik með KR.
Sigurður Bjartur í leik með KR.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Skiptir yfir í FH.
Skiptir yfir í FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Bjartur ræðir hér við Gregg Ryder, þjálfara KR.
Sigurður Bjartur ræðir hér við Gregg Ryder, þjálfara KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Henry Finnbogason, aðstoðarþjálfari FH.
Kjartan Henry Finnbogason, aðstoðarþjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Fagnar hér marki.
Fagnar hér marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er bara snilld. Mér líst drulluvel á þetta," segir sóknarmaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson um að vera kominn í FH. Hann samdi við Fimleikafélagið út 2026 en hann kemur þangað eftir að hafa spilað með KR frá 2022.

Fótbolti.net greindi frá því í síðustu viku að Sigurður Bjartur væri á förum frá KR og að Fylkir hefði áhuga á að fá hann. Sóknarmaðurinn segist hafa tekið ákvörðun um að fara frá KR í ljósi þess að hann var ekki viss um að hann fengi eins mikinn spiltíma og hann vildi.

„Gregg (Ryder, þjálfari KR) var búinn að tala um að okkur yrði róterað þremur sóknarmönnunum og mér leist ekkert sérstaklega vel á það. Lítill spilatími í raun og veru. Svo var ég á samingsári og okkur gekk erfiðlega að ná saman. Þannig að ég óskaði eftir því að fá að ræða við önnur félög. Það var í raun og veru aðdragandinn að þessu," segir Sigurður Bjartur við Fótbolta.net.

„Ég fékk leyfi til þess að ræða við önnur félög en það var bara mánuður í að ég mætti gera það hvort sem er. Það voru sjá mánuðir eftir af samningnum mínum."

Þá fór allt af stað
Hann segist hafa heyrt frá mörgum félögum eftir að það birtist frétt hér á Fótbolta.net að hann væri á förum frá KR.

„Það voru fullt af félögum inn í þessu. Ég fundaði með nokkrum félögum og vissulega byrjaði ég á því að fundaði með Fylki. Um leið og fréttin á Fótbolta.net kemur í loftið um að ég væri að fara frá KR þá fór allt af stað."

„Það komu alveg nokkur félög að borðinu en á endanum leist mér langbest á FH. Það voru tvö eða þrjú félög úr Lengjudeildinni og ég man ekki alveg nákvæmlega hvað þau voru mörg úr Bestu," segir Sigurður Bjartur.

Færð ekkert betri stöðuþjálfara
En hvað er það við FH sem heillar svona mikið?

„Ég þekki tvo í þjálfarateyminu nú þegar, Kjartan Henry og Kristján Finnboga. Ég hef alltaf haft miklar mætur á Heimi sem þjálfara þar sem hann hefur gert frábæra hluti í íslenskum fótbolta, sem og í færeyskum. Mér fannst FH vera mest spennandi. Hópurinn er sterkur og líklegur til alls. Þeim vantaði striker og það var líka það sem heillaði mig; þeim vantaði leikmann eins og ég er," segir Sigurður Bjartur.

Hann spilaði með Kjartani Henry hjá KR sumarið 2022 en Kjartan er núna aðstoðarþjálfari FH.

„Mér líst mjög vel á það að Kjartan Henry sé að fara að þjálfa mig. Ég spilaði með honum 2022 tímabilið og hann kenndi mér helling á meðan við vorum samherjar. Ég sá það að hann gæti kennt mér enn frekar. Ég hugsa að þú fáir ekkert betri stöðuþjálfara en hann á landinu."

„Mér líst mjög vel á það sem er í gangi í FH og hópurinn lítur mjög vel út. Það eru fyrstu kynni en ég er bara búinn að taka tvær æfingar. Ég þekki tvo leikmenn í liðinu nú þegar og ég hugsa að ég verði nokkuð fljótur að kynnast öllum hópnum."

Stefnir alltaf á að vera markahæstur
Sigurður Bjartur segir að árin tvö í Vesturbænum hafi verið góð og þar hafi hann öðlast mikla reynslu.

„Þetta voru tvö góð ár sem ég tók með KR. Ég kem náttúrulega úr Lengjudeildinni og það voru ekki margir sem bjuggust við því að ég myndi spila eins mikið og ég spilaði, allavega ekki á fyrsta tímabilinu. Ég fékk mjög mikla reynslu, ómetanlega reynslu. Ég bætti mig mikið taktískt undir stjórn Rúnars og hans teymis. Ég ber engan kala til KR eftir þessi vistaskipti," segir sóknarmaðurinn en hver eru hans markmið með FH?

„Ég hugsa að fyrsta markmið sé alltaf að ná Evrópu og sjáum við hvar við erum staddir í töflunni þegar styttist í lok tímabilsins. Kannski breytast markmiðin ef við komum brjálaðir út úr hliðunum og það gengur rosalega vel. Við getum örugglega gert fína hluti á þessu tímabili."

„Persónulega er ég ekki með fasta tölu í hausnum á mér. Ég miða alltaf á að vera markahæstur á hverju tímabili. Það eru margir sem halda örugglega að það sé veruleikafirrt en það er bara persónulegt markmið mitt á hverju einasta tímabili."

Samfélagið það sem maður sér mest á eftir
Sigurður Bjartur er uppalinn í Grindavík og sló hann þar í gegn áður en hann fór í KR. Hann skoraði 17 mörk í 21 leik sumarið 2021 með Grindvíkingum.

Það hefur mikið gengið á í Grindavík á undanförnum mánuðum, jarðhræringar og eldgos. Sigurður Bjartur bjó enn í Grindavík þegar rýmingar hófust á síðasta ári en hann stóð þá í flutningum. Hann segist hafa sloppið vel miðað við flesta aðra.

„Ég var í miðjum flutningum þegar rýmingin átti sér stað. Ég var kominn með íbúð á stúdentagörðunum þegar þetta helvíti byrjaði. Ég náði ekki að ferja allar mínar eigur og þurfti að kaupa margt nýtt," segir hann en honum þykir auðvitað mjög vænt um samfélagið sem var í Grindavík.

„Í raun og veru slapp ég rosalega vel frá þessu miðað við marga aðra. Þetta er helvíti leiðinlegt og mikið af fólki sem ég þekki er búið að þurfa flytja 5-10 sinnum. Það fær að vera hér í tvær vikur og þarna í þrjár vikur. Þetta er engin óskastaða."

„Ég var búinn að búa í Grindavík frá sex ára aldri. Eins og margir hafa komið inn á, þá er það samfélagið sem maður sér mest á eftir," sagði þessi öflugi sóknarmaður að lokum en það verður fróðlegt að fylgjast með honum í Fimleikafélaginu í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner