Evrópumótið í fótbolta hefst í þessari viku!
Sumarið 2016 var skemmtilegasta sumar í manna minnum á Íslandi; pirringur Ronaldo, sigurinn á Austurríki, Gummi Ben og auðvitað sigurinn á móti Englandi. Svo má auðvitað ekki gleyma Víkingaklappinu.
Ísland var fimm mínútum frá því að komast á þriðja stórmótið í röð en draumar okkar urðu að engu á svipstundu gegn Ungverjalandi. Hugsum ekki meira um það; Evrópumótið er að hefjast. Það er spennandi stórmót framundan og munum við á næstu dögum skoða riðlana sex fyrir mótið.
Núna er komið að B-riðlinum.
B-riðill
Danmörk
Finnland
Belgía
Rússland
Riðillinn verður spilaður í: Kaupmannahöfn og St. Pétursborg.
Danmörk:
Frændur okkar Danir enduðu í öðru sæti í riðli með Sviss og Írlandi í undankeppninni. Þeir fóru taplausir í gegnum riðilinn en ákváðu samt að láta Äge Hareide fara fyrir mótið. Inn í hans stað kom Kasper Hjulmand sem kemur inn með ferskari hugmyndir og "skemmtilegri" fótbolta. Hingað til hefur fótbolti Hjulmand einnig verið árangursríkur, liðið er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni HM og markatöluna 14:0.
Danir fóru alla leið á EM 1992. Þeir eru með frábæra leikmenn á flestum vígstöðum og góða breidd. Þeir rauðu í Hummel gætu komið mörgum á óvart í sumar, það eru mikil gæði í þessu liði og þeir koma inn í mótið með mikið sjálfstraust.
Hryggjarsúlan:
Kasper Schmeichel (markvörður Leicester)
Simon Kjær (varnarmaður AC Milan)
Christian Eriksen (miðjumaður Inter)
Jonas Wind (sóknarmaður FCK)
Lykilmaðurinn: Christian Eriksen
Við Íslendingar eigum Gylfa Þór Sigurðsson og Danir eiga Christian Eriksen. Þeirra stjörnuleikmaður og ef hann verður góður á EM, þá gætu Danir farið langt.
Fylgist með: Jonas Wind
Sóknarmaður FC Kaupmannahafnar í Danmörku sem er líklegur til að byrja upp á topp hjá Dönum í sumar. Hann er 22 ára og mjög líkamlega sterkur. Hann gæti nýtt EM sem auglýsingaglugga og verður kominn í stærra félag ef hann nær að pota inn meira en tveimur mörkum á mótinu í sumar.
Finnland:
Svakalega er gaman að sjá Finna á stórmóti. Þetta er svona eins og Ísland á EM 2016; þeir eru að fara á sitt fyrsta stórmót í sögunni og það verður partý í Finnlandi í þessu mánuði, og jafnvel í næsta mánuði líka. Finnar eru að fara að upplifa það sem við upplifðum fyrir fimm árum. Kannski verður ekki alveg jafn gaman en maður samgleðst þeim.
Finnland hafði betur gegn Bosníu og Grikklandi í undankeppninni undir stjórn Markku Kanerva, sem var lengi þjálfari U21 landsliðsins finnska. Það verður erfitt fyrir Finnland að komast upp úr þessum riðli en stemning og samheldni getur fleytt liðum langt.
Hryggjarsúlan:
Lukáš Hrádecký (markvörður Bayer Leverkusen)
Joona Toivio (varnarmaður Häcken)
Tim Sparv (miðjumaður AEL)
Teemu Pukki (sóknarmaður Norwich)
Lykilmaðurinn: Teemu Pukki
Auðvitað. Leikjahæstur í hópnum og langmarkahæstur. Hefur sannað sig sem alvöru markaskorari í enska boltanum og lið á EM þurfa að vara sig á honum. Hann er ótrúlega lúmskur og með mikið markanef. Finnland þarf Pukki-partý í sumar til að ná árangri.
Fylgist með: Pyry Soiri
Þetta er algjör meistari og hann er í hópnum á EM. Hér á landi köllum við hann bara Pyry því hér er hann þjóðhetja. Hann skoraði jöfnunarmark Finna gegn Króatíu en það varð til þess að Ísland komst á topp riðils síns í undankeppni HM 2018. Markið varð í raun til þess að Ísland var í kjörstöðu fyrir lokaumferðina og vann riðilinn. Pyry á að fá frítt að borða og drekka hvert sem hann fer á Íslandi.
Belgía:
Eitt af sigurstranglegri liðum mótsins. Við Íslendingar höfum mætt þeim nokkrum sinnum upp á síðkastið og vitum hversu mikil gæði eru þarna. Kevin de Bruyne, þeirra besti leikmaður, meiddist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og mun líklega missa af fyrsta leik í mótinu. Hann má ekki missa af mikið fleiri leikjum. Það veltur mikið á honum á miðsvæðinu.
Þeir eru með Romelu Lukaku upp á topp og sá er baneitraður í búningi Belgíu. Frábær sóknarmaður sem fékk það ósanngjarnt óþvegið frá stuðningsmönnum Manchester United. Varnarmenn munu eiga í fullu fangi með hann. Eden Hazard, hvernig mætir hann til leiks? Búinn að vera mikið meiddur hjá Real Madrid og ekki náð að sýna sínar bestu hliðar. Nær hann að gera það í búningi Belgíu. Það eru spurningamerki en maður lifandi, það eru gæði þarna.
Hryggjarsúlan:
Thibaut Courtois (markvörður Real Madrid)
Toby Alderweireld (varnarmaður Tottenham)
Kevin de Bruyne (miðjumaður Manchester City)
Romelu Lukaku (sóknarmaður Inter)
Lykilmaður: Kevin de Bruyne
Einn af fimm bestu leikmönnum í heimi. Er hægt að setja hann ofar en það? Jafnvel. Frábær leikmaður og spil Belgíu veltur mikið á honum. Svakalega öflugur miðjumaður sem getur komið Belgíu alla leið í úrslit.
Fylgist með: Jérémy Doku
Langyngsti maðurinn í þessum hóp, hann er aðeins 19 ára. Framherji sem getur komið inn með ákveðinn x-faktor inn af bekknum. Ekki sérstaklega mikill markaskorari en hann getur valdið miklum usla framarlega á vellinum með hraða sínum og leikni.
Rússland:
Rússarnir hafa ekki verið á sérstaklega miklu flugi fyrir mótið og þeir töpuðu meðal annars 5-0 fyrir Serbíu í Þjóðadeildinni seint á síðasta ári. Það má hins vegar ekki vanmeta þá. Þeir fóru í átta-liða úrslit á HM 2018 þar sem þeir voru á heimavelli. Þeir spila tvo af þremur leikjum sínum í riðlinum á heimavelli og það mun reynast þeim mjög mikilvægt.
Þetta verður ekki fallegt hjá Rússum en það gæti verið árangursríkt þar sem þeir munu reyna að finna hávaxna framherja sína í loftinu. Igor Akinfeev er hættur og það eru áhyggjur af markvarstöðunni og varnarlínunni.
Hryggjarsúlan:
Anton Shunin (markvörður Dynamo Moskvu)
Mário Fernandes (bakvörður CSKA Moskvu)
Aleksandr Golovin (miðjumaður Mónakó)
Artem Dzyuba (sóknarmaður Zenit)
Lykilmaður: Artem Dzyuba
Fyrirliðinn í þessu liði og þeirra markaskorari. Hann var tekinn úr landsliðshópnum eftir að sjálfsfróunarmyndbandi af honum var lekið á samfélagsmiðla seint á síðasta ári. Hann baðst afsökunar og er kominn aftur í hópinn fyrir þetta stórmót.
Fylgist með: Yury Zhirkov
Maðurinn er orðinn 38 ára og hann er enn í fullu fjöri. Munið ekki öll eftir honum þegar hann var í Chelsea? Líklegt að hann byrji í vinstri vængbakverði á EM.
Dómur Fótbolta.net:
Belgía og Danmörk eru langsterkustu liðin í þessum riðli. Belgarnir vinna riðilinn þrátt fyrir meiðsli De Bruyne og Danir fylgja eftir í öðru sæti. Leikur Belgíu og Danmerkur verður vonandi góð skemmtun. Finnland tekur óvænt þriðja sætið í þessum riðli og gæti jafnvel komist í 16-liða úrslit út frá því. Þetta verður ekki gott mót fyrir Rússland sem situr eftir.
Seinna í dag verður umfjöllun birt um C-riðil. Hér að neðan má hlusta á Olsen bræður frá Danmörku taka gott lag.
Athugasemdir