Holland, Úkraína, Austurríki og Norður-Makedónía
Evrópumótið í fótbolta hefst í þessari viku!
Sumarið 2016 var skemmtilegasta sumar í manna minnum á Íslandi; pirringur Ronaldo, sigurinn á Austurríki, Gummi Ben og auðvitað sigurinn á móti Englandi. Svo má auðvitað ekki gleyma Víkingaklappinu.
Ísland var fimm mínútum frá því að komast á þriðja stórmótið í röð en draumar okkar urðu að engu á svipstundu gegn Ungverjalandi. Hugsum ekki meira um það; Evrópumótið er að hefjast. Það er spennandi stórmót framundan og munum við á næstu dögum skoða riðlana sex fyrir mótið.
Núna er það C-riðillinn.
C-riðill
Holland
Úkraína
Austurríki
Norður-Makedónía
Riðillinn verður spilaður í: Amsterdam og Búkarest.
Holland:
Hollendingar eru mættir aftur á stórmót í fótbolta eftir að hafa misst af EM 2016 og HM 2018. Það er hins vegar ekki mikil jákvæðni í kringum liðið, það virðist ekki vera alla vega.
Ronald Koeman kom Hollandi á EM en hann hætti með landsliðið til að taka við Barcelona. Frank de Boer tók við liðinu en hann virðist ekki vita sitt besta lið eða sitt besta leikkerfi. Besti leikmaður liðsins, Virgil van Dijk, er meiddur og það setur auðvitað strik í reikninginn. Holland er með fínt lið en þeir eru ekki líklegir til afreka.
Hryggjarsúlan:
Maarten Stekelenburg (markvörður Ajax)
Matthijs de Ligt (varnarmaður Juventus
Frenkie de Jong (miðjumaður Barcelona)
Memphis Depay (sóknarmaður Lyon)
Lykilmaðurinn: Frenkie de Jong
Miðjumaður Barcelona er á leið á sitt fyrsta stórmót með landsliðinu. Algjörlega frábær leikmaður og var lykilmaður í frábærum árangri Ajax í Meistaradeildinni 2019. Það verður gaman að fylgjast með samvinnu hans og Georginio Wijnaldum á miðsvæðinu.
Fylgist með: Ryan Gravenberch
Einn efnilegasti miðjumaður í heimi er búinn að spila fjóra landsleiki fyrir Hollendinga 19 ára gamall. Verður næsta stórstjarna úr hinni frægu akademíu Ajax. Miðjumaður sem minnir á Paul Pogba hvernig hann skeiðar um á miðsvæðinu. Með ágætis skotfót líka.
Úkraína:
Eftir að hafa misst af HM 2018, þar sem þeir voru með Íslandi í undanriðli, þá enduðu Úkraínumenn fyrir ofan ríkjandi Evrópumeistara Portúgal í undanriðlinum fyrir EM. Afskaplega vel gert hjá lærisveinum Andriy Shevchenko, afskaplega. Þeir voru líka í riðli með sterku liði Serbíu og það gerir afrekið að vinna riðilinn enn stærra.
Úkraína er með fjórða yngsta liðið á Evrópumótinu í sumar og það má kannski nota orðið kynslóðarskipti þarna þó það sé ofnotað orð í fótboltaheiminum. Það eru tveir 18 ára strákar og einn 19 ára í hópnum. Eftir frábæra undankeppni eru kröfur gerðar á Úkraínu að komast áfram undir stjórn goðsagnar sem raðaði inn mörkum fyrir AC Milan og Dynamo Kiev á leikmannaferlinum. Ekki jafnmikið fyrir Chelsea. Úkraína stefnir á að komast í fyrsta sinn í útsláttarkeppni EM.
Hryggjarsúlan:
Heorhiy Bushchan (markvörður Dynamo Kiev)
Mykola Matviyenko (varnarmaður Shakhtar Donetsk)
Oleksandr Zinchenko (miðjumaður Manchester City)
Andriy Yarmolenko (kantmaður West Ham)
Lykilmaðurinn: Oleksandr Zinchenko
Hann er ekki í risastóru hlutverki hjá Manchester City og hefur þurft að leysa vinstri bakvörðinn þar. Það er ekki hans besta staða og hjá Úkraínu mun hann spila á miðjunni. Það er ástæða fyrir því að hann er að spila í Manchester City, það er mikið í hann spunnið.
Fylgist með: Ruslan Malinovskyi
Skapandi miðjumaður sem spilar með sterku liði Atalanta á Ítalíu. Hann getur boðið upp á óútreiknanlega hluti og er góður tæknilega. Hafið augun á þessum leikmanni.
Austurríki
Austurríkismenn eiga nú ekki sérstakar minningar frá EM 2016... þegar Gummi Ben varð heimsfrægur í París. Þeir eru mættir aftur fimm árum síðar en spennan er ekki mikil í kringum liðið. Þeir vinna liðin sem þeir eiga að vinna en hafa verið í vandræðum með betri eða jafngóð lið.
Austurríki er samt sem áður með sterkt lið og þeir geta vakið upp spennu ef þeir ná að taka sigur af Hollandi eða Úkraínu. Liðið tapaði 4-0 fyrir Danmörku nýverið og það verður spennandi að sjá hvernig þeir mæta til leiks á þessu móti. Þeir munu ekki endilega spila frábæran fótbolta en gætu stolið úrslitum hér og þar.
Hryggjarsúlan:
Alexander Schlager (markvörður LASK)
David Alaba (varnarmaður Real Madrid)
Julian Baumgartlinger (miðjumaður Bayer Leverkusen)
Marko Arnautović (kantmaður Shanghai Port)
Lykilmaðurinn: David Alaba
Hann er langbesti leikmaðurinn í þessu liði. Leikmaður sem allir væru til í að hafa í sínu liði í rauninni. Getur leyst margar stöður varnarlega og á miðju. Samdi nýverið við spænska stórveldið Real Madrid þar sem hann mun þiggja ágætlega há laun.
Fylgist með: Marko Arnautović
Maður hefur ekkert náð að sjá hann spila fótbolta undanfarið þar sem hann hefur verið að spila í Kína. Það var gaman að honum í West Ham. Þetta er skemmtilegur karakter sem kann alveg að sparka í fótbolta. Mikilvægt púsl í sóknarleik Austurríkis.
Norður-Makedónía:
Á pappír eru Goran Pandev og félagar lakasta lið mótsins. Þetta verður erfitt fyrir þá. Eins og Finnland, þá er Norður-Makedónía að spila á sínu fyrsta stórmóti í sögunni. Þeir enduðu í þriðja sæti í riðli sínum í undankeppninni á eftir Póllandi og Austurríki. Þeir komust á EM í gegnum Þjóðadeildar umspilið þar sem þeir voru í D-deild. Þeir þurftu að vinna Georgíu og Kósóvó til að komast á mótið.
Það má samt alls ekki vanmeta þetta lið, bara alls ekki. Þeir refsa. Þeir eru í riðli með Íslandi í undankeppni HM núna og byrjuðu á að vinna tvo af fyrstu þremur leikjum sínum, þar á meðal ótrúlegan útisigur gegn Þýskalandi. Þetta verður erfitt en það verður stuð í Norður-Makedóníu. Að komast á mótið er stórt afrek.
Hryggjarsúlan:
Stole Dimitrievski (markvörður Rayo Vallecano)
Stefan Ristovski (varnarmaður Dinamo Zagreb)
Elif Elmas (miðjumaður Napoli)
Goran Pandev (sóknarmaður Genoa)
Lykilmaðurinn: Goran Pandev
Hann er 37 ára gamall og á leið á sitt fyrsta stórmót. Hann er Eiður Smári þeirra. Hann er fyrirliði Norður-Makedóníu og skoraði markið sem kom þeim á EM. Skoraði sjö mörk í 29 leikjum með Genoa í Serie A á Ítalíu á tímabilinu sem var að klárast.
Fylgist með: Elif Elmas
Þetta er vonarstjarna þeirra. Hann er 21 árs gamall og spilar með Napoli, einu sterkasta félagsliði Ítalíu. Gríðarlega mikilvægur hluti af landsliðinu og skoraði sigurmarkið gegn Þýskalandi í mars. Fær tækifæri til að láta ljós sitt skína á stærsta sviðinu með þjóð sinni á EM.
Dómur Fótbolta.net:
Það er erfitt að spá í spilin fyrir þennan riðil. Það gerist eitthvað óvænt hérna. Úkraína vinnur riðilinn og Austurríki lendir í öðru sæti. Holland tekur þriðja sætið en komast þeir í 16-liða úrslitin út frá því? Það verður að koma í ljós. Þetta verður mikið vonbrigðarmót fyrir Holland. Norður-Makedónía - skemmtileg saga en þeir eiga engan séns í þessum riðli.
Á morgun skoðum við D-riðilinn. Annars átti Úkraína mjög skemmtilegt Eurovision lag í ár sem má hlusta á hér að neðan. Einnig má auðvitað sjá lýsingu Gumma Ben á sigurmarkinu þegar við unnum Austurríki 2016.
Athugasemdir