Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   fim 06. júní 2024 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Blómstrar á Húsavík og er meðvitaður um áhuga á sér - „Sjálfstraustið er hátt uppi"
'Draumurinn er auðvitað að enda markahæstur í deildinni'
'Draumurinn er auðvitað að enda markahæstur í deildinni'
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Er að blómstra akkúrat núna.
Er að blómstra akkúrat núna.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Öflugur í loftinu.
Öflugur í loftinu.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Sést að Jakob er nokkuð hávaxinn.
Sést að Jakob er nokkuð hávaxinn.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Skoraði tvennu gegn KF.
Skoraði tvennu gegn KF.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Skoraði sitt fyrsta mark 2022.
Skoraði sitt fyrsta mark 2022.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Skoraði í nánast öllum leikjum á undirbúningstímabilinu.
Skoraði í nánast öllum leikjum á undirbúningstímabilinu.
Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson
Jakob lék með Pálma Rafni á síðasta tímabili.
Jakob lék með Pálma Rafni á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Faðir Jakobs lék með Völsungi á sínum tíma.
Faðir Jakobs lék með Völsungi á sínum tíma.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Fyrirmyndin, Sæþór Olgeirsson.
Fyrirmyndin, Sæþór Olgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Jakob Gunnar Sigurðsson er funheitur þessa dagana. Framherjinn leikur sér að því að skora, hefur skorað átta mörk í síðustu þremur leikjum fyrir Völsung í 2. deild. Það sem er kannski athyglisverðast við það er að Jakob skoraði einungis eitt mark á síðasta tímabili og auðvitað það að hann er einungis 17 ára gamall.

Fótbolti.net ræddi við kappann um markaskorunina og ýmislegt annað.

Töpuðu fyrstu tveimur en hafa unnið þrjá í röð
Völsungur er búinn með fimm leiki í 2. deild og Jakob fór örstutt yfir hvernig þeir hafa spilast.

„Það hefur gengið vel heilt yfir, töpuðum fyrstu tveimur en áttum ekki skilið að tapa á móti Selfossi. Þar fengum við fullt af færum en nýttum ekkert af þeim. Þeir fengu eina skyndisókn og nýttu hana vel. Á móti Víkingi Ólafsvík vorum við lélegir á kafla í seinni hálfleik og fáum á okkur þrjú mörk. Við gengum svo frá Reyni í fyrri hálfleik. Í fjórða leik unnum við KF, nágrannaslagur þannig lagað, og við vel gíraðir. Við unnum þann leik nokkuð sannfærandi, vorum betri. Síðan mættum við Haukum, þeir voru drullugóðir en við tókum færin okkar vel á meðan þeir gerðu það ekki. Þeir skora sárabótarmark í lokin, 3-1."

Nokkrar ástæður fyrir markaskoruninni
Næsti leikur er svo á móti Hetti/Hugin á morgun. Í sigurleikjunum þremur hefur Jakob raðað inn mörkum. Hann hefur skorað úr tveimur vítum, en restin er úr opnum leik; sloppið í gegn, skorað með skalla og góð slútt. En getur hann útskýrt markaflóðið?

„Ég held að það sé vegna þess að ég átti mjög gott undirbúningstímabil, var að skora nánast í hverjum leik sem ég spilaði. Við fengum inn góðan aðstoðarþjálfara sem er mjög góður í að hvetja menn áfram. Hann spilaði einn leik í fyrra en meiddist og hefur svo komið inn í þjálfunina. Það hjálpaði mér líka mjög mikið að skora þrjú mörk á móti Reyni. Ég veit að ég get skorað ef ég tek færin mín vel, sjálfstraustið er hátt uppi."

Ný staða og skapandi Spánverji
Jakob kom við sögu í sextán leikjum í fyrra og skoraði þá eitt mark. Hann er auðvitað árinu eldri í ár, en þetta er nokkuð mikil bæting í markaskorun.

„Við erum með betra lið en í fyrra. Við vorum mjög beinskeyttir í fyrra, vantaði mann á miðjuna sem var að skapa færi. Pálmi Rafn var hvað helst í því, en hann spilaði ekki alltaf. Við erum komnir með einn slíkan núna, mjög öflugan Spánverja. Hann er drullugóður leikmaður, held hann sé kominn með 5-6 stoðsendingar. Svo hefur Steinþór líka komið vel inn."

„Í fyrra var ég hægri kantur í fyrra en er núna uppi á topp. Mér líður bara best þar og hef spilað þar upp alla yngri flokka."


Í fyrra var Völsungur með Sigurð Hrannar Þorsteinsson í stöðu framherja. Hann var á láni frá ÍA og skoraði 12 mörk sem fremsti maður.

Geta farið upp
Völsungur er sem stendur í þriðja sæti. Hvað er það sem Völsungur vill gera í sumar?

„Við töluðum ekkert þannig um það. En auðvitað vill maður alltaf fara upp. Við erum með hörkulið sem getur unnið öll liðin í deildinni. Ég held að við getum alveg farið upp, en við þurfum að vinna fyrir því."

Strax búinn að ná markmiðinu
Jakob setti sér markmið fyrir tímabilið að skora átta mörk. Hann er núna búinn að setja sér nýtt markmið.

„Fyrir tímabilið ætlaði ég mér að setja átta mörk og er búinn að ná því. Ég er búinn að hækka það í tólf og sé svo til hvað það verður ef ég næ því. Ég hugsa að tólf sé mjög raunhæft, held ég geti náð því. Ef ég næ því þá sé ég hvað er mikið eftir af mótinu og set mér markmið út frá því. Draumurinn er auðvitað að enda markahæstur í deildinni."

Fékk tækifærið í vetur og greip það
Hvernig er að vera 17 ára og fá það traust að leiða framlínuna?

„Það er mjög fínt. Alli þjálfari talaði við mig í vetur og sagði að hann ætlaði að nota mig frammi á undirbúningstímabilinu og ef ég myndi standa mig þá myndi ég spila í sumar. Ég gerði nóg í vetur sem er fínt."

Fór í Þór vegna misskilnings
Í yngri flokkum lék Jakob með Þór, KA, Fjarðabyggð og Aftureldingu áður en hann gekk í raðir Völsungs fyrir tímabilið 2022 en það tímabil lék hann einmitt sína fyrstu meistaraflokksleiki. Hann skoraði í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Völsung, greinilega alvöru markaskorari. Jakob var hjá móður sinni þegar hann var hjá Þór og KA. Hann byrjaði að æfa með Þór í smá misskilningi segir hann, hefði í raun átt að fara strax í KA. Eftir að hafa verið þar í stuttan tíma þá mætti hann KA á móti og tapaði fyrir þeim. Eftir það fór hann yfir í KA.

Sæþór er fyrirmyndin
Hann býr hjá föður sínum á Húsavík en faðir hans, Sigurður Valdimar Olgeirsson, er fyrrum leikmaður Völsungs og bróðir Sæþórs Olgeirssonar sem raðaði inn mörkum fyrir félagið áður en hann meiddist.

Aðspurður um fyrirmynd sagði Jakob það vera Sæþór frændi sinn. „Ég segi alltaf Sæþór þegar ég er spurður, hann var mikil fyrirmynd. Mér finnst smá dapurt hjá honum að vera hættur, hann ætti að rífa sig í gang aftur. Ég er orðinn betri en hann var," sagði Jakob og hló.

Full einbeiting á Völsung sem stendur
Jakob er á flottum stað, spilar alla leiki með Völsungi og fær að blómstra. Hann er meðvitaður að það eru félög að fylgjast með sér. KR hefur sýnt honum áhuga, KA og Þór fylgjast með honum og þá veit hann af áhuga frá Víkingi. Hann var spurður út í sína framtíð, útilokar þú sjálfur að fara eitthvað í glugganum?

„Ég útiloka ekki neitt. Það eru 17 leikir eftir og það getur margt gerst á þeim tíma. Við tökum þessu bara rólega í dag. Það er ennþá mánuður í að glugginn hér opnast og tekur maður stöðuna á hvernig hlutirnir eru. Mér finnst samt ólíklegt að ég fari frá Völsungi, en það getur allt gerst. Ég er með fulla einbeitingu á Völsung og ætla gera eins vel og ég get með Völsungi."

Einhvern veginn vissi sá sem lýsti leiknum af áhuga Víkings
Fyrir leikinn gegn Haukum fékk Jakob að vita að Íslands- og bikarmeistarar Víkings væru að fylgjast með sér. Sá sem lýsti leiknum í Hafnarfirðinum sagði svo frá því í útsendingunni.

„Ég skil ekki hvernig það gerðist, ég sagði engum frá þessu. Þetta var allt í einu komið til strákanna sem voru að lýsa og þaðan inn á Fótbolta.net. Það er bara eins og það er. Ég horfði á þennan leik og heyrði lýsarann segja þetta."

„Ég horfi á alla leiki, er ekki að segja að ég punkti niður hvað ég get gert betur, en reyni að sjá hvað ég get gert öðruvísi. Það eru alltaf vídeófundir eftir leik og þar er farið yfir hvað má betur fara."


Hafnaði Þór fyrir tímabilið
Jakob er stór og stæðilegur framherji, yfir 190 sentimetra hár og er með markanef. Hann er ekki sá fljótasti „en samt ekki hægur." Í vetur æfði hann tvisvar í viku með KA. Svo í lok gluggans kom tilboð frá Þór.

„Ég hafnaði því tilboði. Þeir vildu fá mig og lána mig svo strax til baka. Ég hugsaði að ég myndi ekkert vita hvernig staðan hjá Þór eða Völsungi væri eftir tímabilið og fyrst þeir buðu í mig þá augljóslega hafa þeir áhuga. Ég treysti á að sá áhugi myndi haldast og þá er það möguleiki í framtíðinni."

Fékk ekki samning hjá Lyngby
Jakob er unglingalandsliðsmaður sem hefur spilað sex leiki með Íslandi. Hann lék ekki með U17 fyrr á þessu ári þar sem hann var á reynslu hjá Lyngby. Hann átti samtal við þjálfara landsliðsins og mátu þeir að það væri stærra verkefni að fara með Lyngby til Ítalíu og mögulega vinna sér inn samning.

„Því miður varð ekkert úr því að ég fengi samning hjá þeim. Ég held einfaldlega að ástæðan fyrir því hafi verið að ég stóð mig ekki nógu vel. Þetta var í annað sinn sem ég fór til Lyngby og ég var spenntur fyrir þessu tækifæri. Ég veit ekki hvort þeir séu enn að fylgjast með mér en ég er meðvitaður um það að ef ég held áfram að standa mig þá mun áhugi annara félaga á mér ekki minnka," sagði Jakob sem er líka byrjaður að reyna fyrir sér á samfélagsmiðlum og birti skemmtilegt myndband sem sjá má hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner