Arsenal vill Toney - Sancho bannaður frá æfingasvæði Man Utd - Cucurella vill yfirgefa Chelsea í janúar
banner
   mið 06. október 2021 10:07
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þjóðin gerir kröfu á sigur þó þjálfarinn geri það ekki
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
watermark Arnar á landsliðsæfingu í gær.
Arnar á landsliðsæfingu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Spurningarnar eru miklu fleiri en svörin.
Spurningarnar eru miklu fleiri en svörin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það kveður við nýjan tón hjá íslenska landsliðinu og ummæli Arnars Þórs Viðarssonar á fréttamannafundi í gær um að þjálfararnir myndu aldrei gera kröfu á sigur hafa fallið í ansi grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum.

„Nei, við gerum aldrei kröfu á sigur," sagði Arnar meðal annars á fundinum. Það skal þó enginn efast um að stefnan hjá Arnari sé sett á að vinna leikinn gegn Armeníu á föstudag: „Við trúum því að við getum tekið þrjú stig út úr næsta leik og við einbeitum okkur að því núna."

Arnar talaði líka um það í síðasta landsleikjaglugga að úrslitin væru ekki aðalatriðið. Margir íslenskir stuðningsmenn vilja hinsvegar með engu móti kvitta undir þessi orð hans.

Þrátt fyrir endurnýjun á íslenska landsliðinu, sem fellur niður heimslista FIFA og situr nú í 60. sæti, er krafa stuðningsmanna að á Laugardalsvelli, þessu ótrúlega vígi í gegnum árin, séu sótt sex stig gegn Armeníu og Liechtenstein, liðunum í 89. sæti og 188. sæti.

Hilmar Jökull, einn helsti talsmaður Tólfunnar í gegnum árin, birti færslu á Twitter þar sem hann rifjar upp ummæli Lars Lagerback frá 2012: „Þó að þetta sé minn fyrsti leikur með þessa leikmenn sem eru í hópnum núna, þá vil ég vinna alla leiki, því það skiptir máli að skapa og viðhalda hugarfari sigurvegara."

Samstarf Arnars og Lagerback gekk ekki upp eins og lesendur vita en þessi ummæli Svíans ríma við það sem Kári Árnason sagði í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport eftir að Víkingar urðu Íslandsmeistarar. Að vera sigurvegari snúist um að vera tilbúinn í leikinn og gera allt til að tapa ekki.

Kynslóðaskiptin hjá landsliðinu komu mun brattar en búist var við og Arnar, sem er reynslulítill þjálfari á alþjóðlega fótboltasviðinu, er í hrikalega erfiðu verkefni með afskaplega reynslulítinn landsliðshóp. Krísuástandið bak við tjöldin hjá KSÍ hafa svo sannarlega ekki gert honum starfið auðveldara. Spurningarnar eru miklu fleiri en svörin.

Skyndilega vita stuðningsmenn Íslands ekki hver sé fyrirliðinn, hver sé aðalmarkvörður, hvert besta miðvarðaparið sé, hvernig miðjan virki best og hver sé fyrsti kostur í fremstu víglínu? Arnar veit heldur ekki svörin við þessum spurningum en hans verk er að finna þau og því fyrr því betra.

Það er líka verk að vinna fyrir Arnar að fá þjóðina með sér, eftir síðasta landsleikjaglugga svöruðu 68,6% því neitandi að hann væri rétti maðurinn til að leiða kynslóðaskipti Íslands. Til að snúa þessu við þarf að gera kröfu á að úrslitin fylgi með.
Athugasemdir
banner
banner
banner