Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 07. maí 2022 21:03
Brynjar Ingi Erluson
Guðlaugur Victor með Schalke upp í efstu deild - Birkir lagði upp í tapi
Guðlaugur Victor mun fagna vel í kvöld
Guðlaugur Victor mun fagna vel í kvöld
Mynd: Getty Images
Birkir lagði upp í tapi
Birkir lagði upp í tapi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný Árnadóttir fór meidd af velli í sigri á Inter
Guðný Árnadóttir fór meidd af velli í sigri á Inter
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson og hans menn í Schalke tryggðu sig upp í efstu deild í Þýskalandi eftir magnaðan endurkomusigur á St. Pauli í B-deildinni í dag.

Íslenski miðjumaðurinn byrjaði á bekknum gegn St.Pauli en útlitið var alls ekki gott í hálfleik og voru gestirnir með tveggja marka forystu.

Schalke minnkaði muninn strax í byrjun síðari hálfleiks og skoraði svo tvö til viðbótar. Guðlaugur Victor kom inná á 79. mínútu og var fenginn inn til að halda stöðunni.

Það hjálpaði svo þegar tveir leikmenn St. Pauli fengu að líta rauða spjaldið undir lok leiks og lauk honum með 3-2 sigri Schalke sem hefur nú tryggt sig beinustu leið aftur upp í efstu deild og ljóst að Ísland mun eiga fulltrúa í einni af fimm stærstu deildum Evrópu á næsta tímabili.

Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði Nimes sem tapaði fyrir Toulouse, 2-1. Hann fór af velli á 60. mínútu og sá svo leikmenn Toulouse fagna því að hafa komist upp í efstu deild. Árni Vilhjálmsson sat allan tímann á bekknum er Rodez vann Bastia, 1-0.

Birkir lagði upp í tapi og Guðný fór meidd af velli

Birkir Bjarnason var á sínum stað í byrjunarliði Adana Demirspor sem tapaði fyrir Alanyaspor, 2-1. Adana lenti undir eftir tuttugu mínútna leik áður en Birkir lagði upp jöfnunarmark Adana á 32. mínútu. Alanyaspor skoraði sigurmarkið á 76. mínútu og þremur mínútum síðar fór Birkir af velli. Adana er í 8. sæti með 52 stig.

Viðar Ari Jónsson kom við sögu undir lok leiks hjá Honved sem gerði markalaust jafntefli við Mezokovesd-Zsory. Þetta var risastig fyrir Honved sem er tveimur stigum fyrir ofan fallsæti fyrir lokaumferðina.

Íslendingarnar í norska liðinu Viking, þeir Patrik Sigurður Gunnarsson og Samúel Kári Friðjónsson, fögnuðu 4-3 sigri á Molde í norsku deildinni í dag. Báðir voru í byrjunarliðinu í dramatískum sigri en liðið lenti þremur mörkum undir en kom til baka og skoraði fjögur. Samúel fór af velli á 75. mínútu en Patrik lék allan leikinn. Viking er í efsta sæti deildarinnar með 15 stig.

Það var svo nágrannaslagur af bestu gerð í ítalska kvennaboltanum er Milan vann Inter 3-0. Guðný Árnadóttir var í byrjunarliði Milan á meðan Anna Björk Kristjánsdóttir sat á bekk Inter.

Milan náði forystunni snemma leiks en Guðný þurfti að yfirgefa völlinn eftir hálftíma vegna meiðsla. Milan skoraði tvö mörk til viðbótar í leiknum og tryggði sér góðan 3-0 sigur. Anna Björk kom ekkert við sögu.

Milan er í 3. sæti með 46 stig en Inter í 5. sæti með 38 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner