Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   sun 07. júlí 2024 22:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Á ekki að vera það sem sker úr um hvort við vinnum eða gerum jafntefli"
'Ég er meira ósáttur við að fá á mig tvö mörk heldur en að hafa ekki skorað fleiri.'
'Ég er meira ósáttur við að fá á mig tvö mörk heldur en að hafa ekki skorað fleiri.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt hefur skorað þrjú mörk í Bestu deildinni í sumar. Hann fór frá Breiðabliki fyrir tímabilið 2022.
Benedikt hefur skorað þrjú mörk í Bestu deildinni í sumar. Hann fór frá Breiðabliki fyrir tímabilið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Kiddi Jóns er búinn að vera algjörlega frábær fyrir okkur'
'Kiddi Jóns er búinn að vera algjörlega frábær fyrir okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Hann er í miklu kappi við tímann fyrir fimmtudaginn, en það lítur ekki nógu vel út því miður'
'Hann er í miklu kappi við tímann fyrir fimmtudaginn, en það lítur ekki nógu vel út því miður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik gerði 2-2 jafntefli við Vestra í Bestu deildinni í gær. Leikurinn fór fram á Ísafirði og komust Blikar í tvígang yfir í leiknum. Fótbolti.net ræddi við þjálfara Breiðabliks, Halldór Árnason, í dag og fór hann aðeins yfir leikinn.

Lestu um leikinn: Vestri 2 -  2 Breiðablik

„Vestramenn komu með mjög öflugt upplegg inn í leikinn. Við vissum að þeir myndu reyna verja markið sitt betur en í leiknum á undan vegna þess að þeir fóru með himinskautum fyrstu tvo leikina á heimavelli, ætluðu svo sannarlega að gleðja fólkið sitt; spiluðu leik sem þeir réðu ekkert við bæði á móti Val og Fram og báðir leikir töpuðust stórt - og hefðu getað tapast töluvert stærra. Við vorum meðvitaðir um að þeir myndu ekki spila þriðja leikinn í röð á sama hátt."

„Þeir beittu háum boltum sóknarlega og vörðust í 5-4-1 lágblokk á móti okkur. Þannig er alltaf erfitt að brjóta á bak aftur. Að skora tvö mörk á að vera nóg til að vinna, sérstaklega þegar þú kemst yfir tvisvar. Ég er meira ósáttur við að fá á mig tvö mörk heldur en að hafa ekki skorað fleiri. Við sköpuðum ekki 20 dauðafæri, en við skoruðum tvö mörk, þeir bjarga á línu skalla frá Benji (Benjamin Stokke), Patrik klikkar úr algjöru dauðafæri og Eiður Aron brýtur á Kristófer Inga inn í vítateig í uppbótartíma. Við gerðum nóg til að vinna, þetta var aldrei að fara vera neitt brjálæðislega fallegt, en þegar þú færð tvö mörk á þig þá grefurðu djúpa holu."

„Við höfum fengið á okkur fá mörk í sumar, andstæðingarnir með lágt xG; við staðið okkur vel í varnarleiknum. Það er dýrt að fá á sig tvö mörk og seinna markið var helvíti lélegt af okkar hálfu og kostaði okkur sigurinn."


Á ekki að vera það sem sker úr um niðurstöðu leiksins
Breiðablik komst yfir með marki úr vítaspyrnu sem heimamenn voru svekktir með og í uppbótartíma gerðu gestirnir tilkall í aðra vítaspyrnu.

„Í vítaspyrnudómnum þá var Viktor Karl kominn einn í gegn, tekur lélega fyrstu snertingu og í einhverju panikki ýtir varnarmaðurinn í bakið á honum sem var mjög klaufalegt og býður upp á að það sé dæmt víti. Hefði dómarinn getað sleppt því? Já. Hefði það verið rétt? Ég veit það ekki, varnarmaðurinn ýtir í bakið á honum og Viktor Karl átti síðustu snertingu á boltann. Þetta var ekki gróft brot, en held að samkvæmt reglunum hafi þetta verið víti."

„Hitt atvikið leit furðulega út, það kemur bolti inn á teig sem Kristófer Ingi skallar til baka út úr teignum. En um leið og Kristófer skallar þá keyrir Eiður Aron hann niður og það er auðvitað bara víti."

„En víti eða ekki víti á 94. mínútu á ekki að vera það sem sker úr um hvort við vinnum leikinn eða gerum jafntefli. Við tökum það á okkur sjálfa að klára leikinn sjálfir, án þess að fá einhverja aðstoð."


Samgleðst Benó
Benedikt Warén skoraði fyrir Vestra, hann er uppalinn Bliki. Er öðruvísi að sjá hann skora heldur en einhvern annan?

„Nei, ég svo sem pældi ekkert í því. Ég bara samgleðst Benó fyrir að hafa tekið fótboltann alvarlega - föstum tökum - komið sér í gott stand og sýnt það sem allir vita að hann er frábær leikmaður. Vonandi heldur honum áfram að ganga vel. En þú pælir ekkert í því hver það er þegar þú færð svona mark á þig, það eru þúsund aðrir hlutir sem fara í gegnum hugann; ótrúlega margt við það mark sem er hrikalega lélegt hjá okkur. En vel klárað hjá Benó."

Kiddarnir báðir meiddir
Kristinn Jónsson og Kristinn Steindórsson voru ekki með Blikum í leiknum.

„Staðan á þeim er ekki nógu góð, því miður. Það er hrikalega slæmt að missa þá út. Kiddi Jóns er búinn að vera algjörlega frábær fyrir okkur, hann lenti í sínum þriðju höggmeiðslum í sumar, meiðsli sem erfitt er að koma í veg fyrir og ömurlegt að vera alltaf að missa hann út. Kiddi Steindórs er tábrotinn og ennþá það bólginn að hann kemst ekki í skó. Hann er í miklu kappi við tímann fyrir fimmtudaginn, en það lítur ekki nógu vel út því miður."

Vilja vera í færi þegar í úrslitakeppnin hefst
Blikar hafa í tvígang í sumar haft tækifæri á því að komast á topp deildarinnar en ekki gripið það. Fyrra skiptið var gegn Víkingi á heimavelli þar sem Víkingar jöfnuðu alveg í lokin, og seinna skiptið var gegn ÍA í síðustu umferð. Setti það pressu á ykkur að vita að toppsætið væri í boði?

„Nei, það gerði það auðvitað ekki. Þetta snýst bara um stigasöfnun og hún hefur ekki verið nógu góð í síðustu leikjum. Þetta snýst bara um að safna stigum og passa upp á það verði alvöru úrslitakeppni, sex efstu liðin munu mætast innbyrðis og ef þetta er þokkalega jafnt fyrir þá getur þetta verið ansi fljótt að breytast. Við viljum vera með í þeirri baráttu," sagði Dóri.

Næstu tveir leikir Breiðabliks eru gegn norður-makedónska liðinu Tikvesh í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn fer fram ytra og er sá leikur næstkomandi fimmtudag.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner