Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 07. júlí 2024 17:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Dóri um fjarveru Jasonar: Í vettvangsferð á Englandi
Býst við því að Jason verði seldur í sumar
Hefur skorað fimm mörk í Bestu deildinni á tímabilinu.
Hefur skorað fimm mörk í Bestu deildinni á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jason á að baki fimm A-landsleiki og verður 25 ára í lok árs.
Jason á að baki fimm A-landsleiki og verður 25 ára í lok árs.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Bjarki Már er umboðsmaður Jasonar.
Bjarki Már er umboðsmaður Jasonar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Breiðablik heimsótti Ísafjörð í gær og gerði þar 2-2 jafntefli við heimamenn í Vestra. Jason Daði Svanþórsson er einn af lykilmönnum Breiðabliks en hann var ekki í leikmannahópi liðsins.

Fótbolti.net ræddi við þjálfara Breiðabliks, Halldór Árnason, í dag og var hann spurður út í fjarveru Jasonar.

Lestu um leikinn: Vestri 2 -  2 Breiðablik

„Jason er í vettvangsferð á Englandi, er að meta afleiðingar þorskastríðanna á bresk byggðarlög," sagði Dóri léttur.

Jason hefur sterklega verið orðaður við Grimsby. Er hann þar?

„Ég veit ekki nákvæmlega hvar hann er staðsettur."

Einhver tenging við umboðsmanninn
Veist þú hvernig Grimsby veit hver Jason Daði er?

„Það er frábær spurning og sennilega eitthvað sem þarf að spyrja umboðsmann hans að. Það hefur auðvitað verið mikill áhugi á Jasoni í lengri tíma, eðlilega, frábær leikmaður og þegar hann hefur verið heill hefur hann verið með betri mönnum í deildinni. Það er mjög eðlilegt að það sé áhugi, það hefur verið lengi og verið víða. Ég held það sé einhver tenging umboðsmannsins sem kveikir þennan áhuga."

Bjarki Már Ólafsson er umboðsmaður Jasonar.

Verður líklega seldur
Heldur þú að Jason fari til Grimsby í þessum glugga?

„Ég held að Jason verði allavega seldur frá Breiðabliki í júlí."

Blikar skoða markaðinn
Þarft þú að fá inn mann í staðinn?

„Við þurfum að meta það, við ætlum ekki að taka bara einhvern inn. Það er mjög erfitt að finna einhvern sem fyllir í það skarð sem Jason skilur eftir sig, hann er einstakur leikmaður. Hvort við tökum inn leikmann eða leikmenn til að breikka og styrkja hópinn, það er eitthvað sem við erum klárlega að skoða. Ef einhver kemur þá þarf hann að passa inn í það sem við erum að gera, ekki einhver panikk kaup."

Glímir við meiðsli
Af því Jason er ekki formlega farinn, er ekki svekkjandi að geta ekki notað hann þangað til að hann fer?

„Jújú, en Jason er stífur aftan í læri og hefði aldrei verið leikhæfur á móti Vestra, spilaði nokkrar mínútur á móti FH og var bara ekki nógu góður eftir það," sagði Dóri um Jason.

Næstu tveir leikir Breiðabliks verða gegn norður-makedónska liðinu Tikvesh í 1. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Fyrri leikurinn fer fram á fimmtudag og fer fram ytra.

Dóri ræddi nánar um leikinn gegn Vestra og verður sá hluti viðtalsins birtur í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner