Greenwood orðaður við Liverpool - Bournemouth vill Nwaneri lánaðan - Glasner ræðir við Palace áður en hann tekur ákvörðun
   fim 08. janúar 2026 09:40
Elvar Geir Magnússon
Keegan greinist með krabbamein
Mynd: EPA
Kevin Keegan, fyrrum sóknarmaður enska landsliðsins og fyrrum landsliðsþjálfari Englands, hefur greinst með krabbamein.

Keegan er 74 ára og átti frábæran fótboltaferil þar sem hann var tvívegis kjörinn besti fótboltamaður Evrópu. Hann lék með Liverpool, Hamburg, Southampton og Newcastle United.

Hann fór í þjálfun eftir að ferlinum lauk og stýrði Newcastle United, Fulham, Englandi og Manchester City.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Keegan segir að hann hafi farið í skoðun vegna einkenna í kviðarholi og þá hafi hann verið greindur með krabbamein.

Newcastle sendi 'Kóngnum Kev' kveðjur á samfélagsmiðlum og sagði að félagið yrði með honum hvert einasta skref.

„Þetta eru mjög leiðinlegar fréttir. Kevin er algjör goðsögn hjá félaginu, ekki bara sem leikmaður heldur einnig sem stjóri. Ég hef verið það heppinn að hitta hann nokkrum sinnum og það hefur verið heiður," segir Eddie Howe, núverandi stjóri Newcastle.

Liverpool og Manchester City sendu einnig kveðjur til Keegan, fjölskyldu hans og ástvina.
Athugasemdir
banner
banner
banner