Spánn, Svíþjóð, Pólland og Slóvakía
Evrópumótið í fótbolta hefst í þessari viku! Gleðilega hátíð.
Sumarið 2016 var skemmtilegasta sumar í manna minnum á Íslandi; pirringur Ronaldo, sigurinn á Austurríki, Gummi Ben og auðvitað sigurinn á móti Englandi. Svo má auðvitað ekki gleyma Víkingaklappinu.
Ísland var fimm mínútum frá því að komast á þriðja stórmótið í röð en draumar okkar urðu að engu á svipstundu gegn Ungverjalandi. Hugsum ekki meira um það; Evrópumótið er að hefjast. Það er spennandi stórmót framundan og höfum við á Fótbolti.net verið að hita upp fyrir mótið síðustu daga.
Núna er komið að næst síðasta riðlinum, E-riðlinum.
E-riðill
Spánn
Svíþjóð
Pólland
Slóvakía
Riðillinn verður spilaður í: St. Pétursborg og Seville.
Spánn:
Fyrir tíu árum síðan var Spánn langbesta landslið í heims og unnu þeir hvert mótið á fætur öðru. Það hefur hins vegar alls ekki gengið vel á stærsta sviðinu eftir að Spánn fór alla leið á EM 2012. Liðið féll úr leik í riðlakeppninni á HM 2014 og út í 16-liða úrslitunum á EM 2016 og HM 2018.
Spánverjar eru rosalega góðir á sínum degi en það vantar að finna stöðugleika. Þeir eru ekki með Xavi og Iniesta lengur á miðjunni og Sergio Ramos er ekki í hópnum í sumar. Þegar maður lítur yfir leikmannahópinn, þá er þetta ekki spænska landsliðið eins og það var fyrir tíu árum þegar hver stjarnan á fætur annarri var í liðinu.
Hryggjarsúlan:
Unai Simón (markvörður Athletic Bilbao)
Aymeric Laporte (varnarmaður Manchester City)
Sergio Busquets (miðjumaður Barcelona)
Álvaro Morata (sóknarmaður Juventus)
Lykilmaðurinn: Aymeric Laporte
Þetta er maðurinn sem er að fylla skarð Sergio Ramos. Missti byrjunarliðssæti sitt hjá Manchester City á tímabilinu en hann er mjög öflugur miðvörður sem mun spila við hlið Pau Torres. Góður á boltanum og verður mikilvægur í uppspilinu. Kemur í hefndarhug inn á mótið þar sem Frakkar vildu ekki sjá hann í sínu liði.
Fylgist með: Pedri
Nýjasta vonarstjarnan hjá Barcelona. Hann byrjaði 28 leiki í La Liga þar sem hann skoraði þrjú mörk og lagði upp þrjú. Börsungar binda gríðarlega miklar vonir við þennan kappa sem er aðeins 18 ára gamall.
Svíþjóð
Svíarnir komust í átta-liða úrslit á HM 2018 undir stjórn Janne Andersson sem hefur gert flotta hluti með sænska landsliðið. Tveir landsliðsþjálfararnir á undan honum tóku svo við íslenska landsliðinu og hver veit nema Andersson geri það einnig einhvern daginn.
Svíþjóð hefur bara einu sinni komist upp úr riðlinum á síðustu fimm Evrópumótum. Svíþjóð hefur unnið alla fimm leiki sína á árinu til þessa og tóku meðal annars Armeníu 3-1 í síðasta vináttulandsleik sínum fyrir mót. Þeir gætu komið á óvart þrátt fyrir að það sé enginn Zlatan í hópnum.
Hryggjarsúlan:
Robin Olsen (markvörður Everton)
Victor Lindelöf (varnarmaður Manchester United)
Emil Forsberg (miðjumaður RB Leipzig)
Alexander Isak (sóknarmaður Real Sociedad)
Lykilmaðurinn: Victor Lindelöf
Ekki alltaf í náðinni hjá stuðningsmönnum Manchester United en það er ástæða fyrir því að hann er að spila í einu stærsta félagsliði heims. Með gríðarlega góðar sendingar fram völlinn og hann þarf að eiga gott mót í vörninni til að Svíarnir fari langt.
Fylgist með: Andreas Granqvist
Fyrirliði Svía er 36 ára gamall og spilar í B-deildinni í Svíþjóð með Helsingborg. Gríðarlega skemmtilegur karakter sem var frábær á HM fyrir þremur árum. Þetta er Kári Árnason þeirra Svía, alltaf í landsliðinu og skilar alltaf sínu með glæsibrag. Það má reyndar alveg einnig fylgjast með Dejan Kulusevski, það er leikmaður!
Pólland:
Liðið sem Ísland var að spila við í vináttulandsleik áðan. Þeir eru með besta sóknarmenn í heimi og það er alvöru vopn að hafa. Það er vopn sem getur komið þeim langt þar sem Robert Lewandowski hefur ef eitthvað er, aldrei litið betur út. Hann getur ekki hætt að skora og Pólverjar vona að það haldi áfram á Evrópumótinu.
Leikmennirnir í kringum hann eru spurningamerki og þurfa að stíga upp. Lewandowski var ekki í stuði áðan og það hafði mikil áhrif á leik liðsins. Það hefur ekki gengið vel hjá Póllandi að undanförnu og liðið aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum. Sá sigur kom gegn Andorra á heimavelli, 3-0. Leikurinn áðan veldur áhyggjum.
Hryggjarsúlan:
Wojciech Szczęsny (markvörður Juventus)
Kamil Glik (varnarmaður Benevento)
Piotr Zieliński (miðjumaður Napoli)
Robert Lewandowski (sóknarmaður Bayern München)
Lykilmaðurinn: Robert Lewandowski
Þarf að segja eitthvað meira um þennan leikmann? Markavél.
Fylgist með: Mateusz Klich
Miðjumaður sem hefur verið í Bielsa skólanum síðustu ár. Skemmtilegur leikmaður sem gæti búið til erfiðleika fyrir andstæðinginn með orku sinni á miðsvæðinu.
Slóvakía:
Slóvakar eru að fara að spila á sínu öðru Evrópumóti. Þeir fóru líka á EM 2016 þar sem þeir komust í 16-liða úrslit eftir að hafa gefið Englendingum og Rússum erfiða leiki. Slóvakía fór mjög erfiða leið inn á þetta mót þar sem þeir enduðu í þriðja sæti í sínum riðli og fóru í umspil. Þar unnu þeir Írland í vítaspyrnukeppni og Norður-Írland í framlengdum leik.
Slóvakía kemur ekki inn í þetta mót á fleygiferð og hefur átt í vandræðum með að vinna leiki upp á síðkastið. Í síðustu fimm leikjum hefur liðið hefur hins vegar ekki tapað heldur og er með fjögur jafntefli og einn sigur í þeim. Það verður erfitt að vinna þá, en hver á að skora mörkin?
Hryggjarsúlan:
Martin Dúbravka (markvörður Newcastle)
Milan Škriniar (varnarmaður Inter)
Marek Hamšík (miðjumaður Trabzonspor)
Róbert Mak (kantmaður Ferencváros)
Lykilmaðurinn: Milan Skriniar
Það mun væntanlega mikið mæða á Slóvakíu í varnarleiknum í sumar og þar verður Milan Skriniar fremstur í flokki. Frábær miðvörður sem sannaði gildi sitt þegar Inter vann ítölsku úrvalsdeildina á nýafstöðnu tímabili.
Fylgist með: Marek Hamšík
Markahæsti og leikjahæsti leikmaður Slóvakíu. Hann hefur verið að spila með Gautaborg í Svíþjóð en er alveg enn með töfra í fótunum. Var að semja við Trabzonspor í Tyrklandi.
Dómur Fótbolta.net
Undirrituðum finnst Spánverjar ekki spennandi en það eru Pólverjar ekki heldur miðað við leikinn áðan alla vega. Lewandowski verður samt í flottu formi og setur að minnsta kosti þrjú mörk í riðlakeppninni. Spánn vinnur riðilinn, Svíþjóð endar í öðru og Pólland í þriðja. Slóvakía situr eftir.
Síðasti riðillinn verður tekinn fyrir á fimmtudag. Þangað til, smá Abba!
Athugasemdir