Framtíð Ten Hag ákveðin í dag - Zubimendi til City - Liverpool horfir til Frankfurt - Sane aftur til Englands
   þri 08. október 2024 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gabríel Snær til Norrköping á reynslu - Fylgir hann í spor pabba síns?
Mynd: Aðsend
Sóknarmaðurinn efnilegi Gabríel Snær Gunnarsson er farinn á reynslu til sænska félagsins Norrköping. Gabríel er samningsbundinn ÍA, skrifaði undir samning út tímabilið 2026 í sumar. Hann er fæddur árið 2008 og er því á 3. flokks aldri en hefur mest spilað með 2. flokki í sumar.

„Þar hefur hann staðið sig gríðarlega vel, það vel að hann hefur komið inn á í tveimur leikjum í Bestu deildinni á tímabilinu. Gabríel á einnig að baki 5 unglingalandsliðsleiki," segir í tilkynningu ÍA.

Þar segir einnig að Gabríel sé snöggur leikmaður með góðan leikskilning og gott markanef. Það kemur kannski ekki á óvart því faðir hans er markavélin Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Gunnar Heiðar spilaði einmitt með Norrköping á árunum 2011-2013 og skoraði 34 mörk í 70 deildarleikjum.

Tengingin milli ÍA og Norrköping er sterk. Ísak Bergmann Jóhannesson, Oliver Stefánsson, Arnór Sigurðsson, Garðar Gunnlaugsson, Stefán Þórðarson, Birkir Kristinsson og Þórður Þórðarson hafa spilað með báðum liðum.

Ísak Andri Sigurgeirsson og Arnór Ingvi Traustason eru leikmenn Norrköping og Ari Freyr Skúlason er starfsmaður félagsins.
Athugasemdir
banner
banner