Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 16. maí 2024 15:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sonur Gunnars Heiðars lék sinn fyrsta leik - Tæknilega betri en pabbinn
Eftir leikinn á laugardaginn.
Eftir leikinn á laugardaginn.
Mynd: Aðsend
Gabríel var markahæsti leikmaður í lotu 1 í B-deild 2. flokks. Hann skoraði 14 mörk í 8 leikjum, þar á meðal eina fernu og eina þrennu.
Gabríel var markahæsti leikmaður í lotu 1 í B-deild 2. flokks. Hann skoraði 14 mörk í 8 leikjum, þar á meðal eina fernu og eina þrennu.
Mynd: Aðsend
Gabríel Snær Gunnarsson lék síðasta laugardag sinn fyrsta leik með meistaraflokki ÍA þegar hann kom inn á Vestra í uppbótartíma þegar liðin mættust í Bestu deildinni.

Lestu um leikinn: ÍA 3 -  0 Vestri

Gabríel er uppalinn Eyjamaður en skipti yfir í ÍA fyrir síðasta tímabil. Það gerði hann þegar fjölskylda hans flutti á Akranes frá Vestmannaeyjum. Faðir hans er Gunnar Heiðar Þorvaldsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta og í dag þjálfari Njarðvíkur.

Gabríel á að baki tvo leiki með U16 landsliðinu, lék með liðinu í sigrum geng Færeyjum og Gíbraltar í mars. Hann er fæddur árið 2008 og verður 16 ára í júlí.

„Það var mjög skemmtilegt, virkilega gaman að sjá hann fá fyrsta leikinn. Ég held þetta séu meira einhver verðlaun fyrir það sem hann er búinn að gera frekar en að það hafi átt að gera einhverjar taktískar breytingar og ná í næsta mark. Virkilega góð viðurkenning. Það er gaman að sjá að Jón Þór og Deano hafi gefið honum séns," sagði Gunnar Heiðar við Fótbolta.net.

„Það er auðvitað alltaf gaman að sjá börnunum sínum ganga vel. Við erum þokkalega vön í fjölskyldunni að sjá stóra hluti og tökum öllu með stóískri ró, erum hógvær með allt svona. Hann er bara á sinni vegferð og þetta er ekkert að fara slá hann út af laginu. Þetta er bara klapp á bakið og hann mun halda áfram að bæta sig og einbeita sér að því að verða sá leikmaður sem hann vill verða."

Er hann líkur pabba sínum sem leikmanni?

„Hann verður betri en ég, það er alveg á hreinu," sagði Gunnar á léttu nótunum. „Við erum svipaðir leikmenn, hann er með meiri tækni en ég var með á sínum tíma. Hann hefur gríðarlega mikinn leikskilning, er bæði fljótur, með góða tækni og góð skot bæði með hægri og vinstri. Hans helsti styrkleiki er leikskilningurinn, hann skilur leikinn mjög vel og kemur sér oft í góðar stöður þar sem hann getur annað hvort skorað eða lagt upp. Hann er búinn að lesa stöðuna á vellinum þannig að hann getur tekið rétta ákvörðun. Það sem skiptir máli í þessu er að mörk séu skoruð svo hægt sé að vinna leikina. Þess vegna erum við í þessari íþrótt."

„Ég átti kannski ekki von á því að hann myndi spila svona snemma. Ég bjóst við því að ef hann myndi halda áfram á sinni vegferð þá myndi hann fá einhver tækifæri í lok tímabilsins, yrði þá verðlaunaður. Þetta er kannski að koma aðeins fyrr en ég bjóst við. Það voru einhver meiðsli í hópnum, en það er gaman að vita til þess að hann sé þokkalega nálægt þessu. Hann hefur verið að sprikla aðeins með þeim inn á milli,"
sagði Gunnar Heiðar.

Gunnar Heiðar lék sjálfur 24 landsleiki, varð tvisvar sinnum markakóngur efstu deildar á Íslandi, einu sinni markakóngur Allsvenskan í Svíþjóð og varð svo bikarmeistari með ÍBV árið 2017. Hann lék erlendis sem atvinnumaður frá árinu 2004 til 2015.

Þess má geta að Gabríel var ekki sá eini sem lék sinn fyrsta leik fyrir ÍA en það gerði einnig Matthías Daði Gunnarsson sem fæddur er árið 2006.
Athugasemdir
banner