Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fim 09. ágúst 2018 16:07
Magnús Már Einarsson
Alex Freyr á leið í KR
Alex í leik á KR velli í sumar.
Alex í leik á KR velli í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Freyr Hilmarsson, miðjumaður Víkings R, hefur náð samkomulagi um að leika með KR næsta sumar samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fótbolti.net ræddi við hann í dag.

Alex Freyr verður samningslaus í október en nýjar félagaskiptareglur á Íslandi gera það að verkum að félög mega ræða við leikmenn þegar þeir eiga sex mánuði eftir af samningi sínum.

Félög sem gera þetta verða þó að láta félag leikmannsins vita að þau ætli sér að ræða við leikmanninn.

Alex Freyr er 24 ára gamall en hann hefur verið einn öflugasti leikmaður Víkings undanfarin ár.

Alex ólst upp hjá Sindra á Höfn í Hornafirði en hann spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild með Grindavík árið 2012. Alex hefur leikið með Víkingi frá því árið 2016. Samtals hefur hann skorað 13 mörk í 73 leikjum í efstu deild.

Í gærkvöldi kom Alex inn á sem varamaður í hálfleik í 2-1 tapi Víkings gegn Grindavík í Pepsi-deildinni.

Víkingur R. og KR mætast í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í sumar og útlit er fyrir að það gæti orðið kveðjuleikurinn hjá Alex áður en hann fer til KR.
Athugasemdir
banner
banner
banner