Eddie Howe, stjóri Newcastle, býst ekki við að Alexander Isak verði með liðinu þegar það mætir Aston Villa í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.
Sænski framherjinn heldur áfram að æfa einn hjá Newcastle á meðan hann bíður eftir að framtíð sín skýrist.
Liverpool hefur verið á eftir honum síðasta mánuðinn og staðfesti áhuga sinn með 110 milljóna punda tilboði en Newcastle var ekki lengi að hafna því.
Newcastle er í framherjaleit og verður Isak ekki seldur fyrr en annar leikmaður kemur í stað hans.
Isak ferðaðist ekki með liðinu til Asíu í síðasta mánuði og hefur ekki æft með því síðustu vikur. Hann var ekki með gegn Espanyol í æfingaleik í gær og mun ekki heldur spila gegn Atlético Madríd í dag.
„Við höfum rætt saman og það er alveg skýrt að við getum ekki haft hann í hópnum á þessu augnabliki. Við vitum ekki hversu lengi það varir en ég get ekki haft hann í kringum liðið núna,“ sagði Howe í gær.
„Hann æfir aðeins seinna en restin af hópnum. Það hafa verið samræður síðan við komum til baka, en ég veit ekki til þess að það hafi verið beitt einhverjum agarefsingum.“
„Isak er hér, þannig auðvitað á hann framtíð hjá Newcastle. Við myndum auðvitað elska það að hafa hann hér með liðinu, en hlutirnir þurfa að vera í lagi til þess að það sé hægt.“
Enska úrvalsdeildin hefst næstu helgi en Howe telur það heldur ólíklegt að Isak verði með liðinu þegar það mætir Aston Villa á Villa Park.
„Ég sé stöðuna ekki breytast fyrir leikinn gegn Aston Villa,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir