Sky Sports greinir frá því að Newcastle United ætlar að bíða eftir Brentford til að gera nýtt tilboð í sóknarmanninn knáa Yoane Wissa.
Brentford neitar að selja framherjann áður en félagið finnur arftaka fyrir hann í sóknarlínuna, en Wissa kom að 25 mörkum í 39 leikjum á síðustu leiktíð og var í algjöru lykilhlutverki ásamt Bryan Mbeumo.
Wissa er 29 ára gamall og með tvö ár eftir af samningi. Brentford hafnaði 25 milljón punda tilboði frá Newcastle fyrr í sumar en talið er að félagið muni samþykkja 30 milljónir - þó eingöngu eftir að nýr sóknarmaður verður keyptur inn.
Newcastle ætlar því að nota næstu vikur til að einbeita sér að öðrum skotmörkum og leggja svo fram nýtt tilboð í Wissa þegar Brentford finnur arftakann.
Umboðsteymi Wissa er í London þessa stundina og gengu viðræður við Brentford og Newcastle vel í dag.
Það gæti þó tekið smá tíma fyrir Brentford að finna nýjan leikmann. Félagið þarf að kaupa inn tvo nýja sóknarmenn eftir söluna á Mbeumo og eru mörg önnur félög í beinni samkeppni við Brentford um leikmenn.
08.08.2025 19:20
Wissa ekki með í hóp
Athugasemdir