Bayern hefur áhuga á Jackson - Isak ekki að fara að spila æfingaleiki - Höjlund á blaði Milan
   fös 08. ágúst 2025 08:15
Elvar Geir Magnússon
Bröndby til skammar á Íslandi - Ofbeldi, skemmdarverk og danskur hroki
Lögreglan að störfum í Víkinni í gær.
Lögreglan að störfum í Víkinni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danska liðið Bröndby og stuðningsmenn urðu sér algjörlega til skammar á Íslandi í gær. Liðið tapaði 3-0 í fyrri leik sínum gegn Víkingi, í leik sem það hefði vel getað tapað stærra, og stuðningsmenn liðsins voru með ofbeldisfulla hegðun og unnu skemmdarverk bæði á heimavelli Víkings og á veitingastaðnum Ölveri þar sem þeir hituðu upp fyrir leikinn.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  0 Bröndby

Eftir leikinn í gær lentu stuðningsmenn liðsins í átökum við lögreglu og sýndu mikla vanvirðingu. Haukur Hinriksson, framkvæmdastjóri Víkings, segir við RÚV að veist hafi verið að stuðningsmönnum Víkings og hópslagsmál mynduð við lögreglu á leiðinni af vellinum. Lögreglan notaðist við piparúða í átökunum og Haukur talar um að milljónatjón hafi orðið við völlinn í skemmdarverkum.

Fram kemur á RÚV að lögreglan hafi metið stöðuna svo fyrir leikinn að lítil hætta væri á vandræðum en þar voru klárlega gerð mistök. Á Ölveri þar sem stuðningsmenn Bröndby hituðu upp fyrir leikinn yfir daginn voru svo sannarlega blikur á lofti en hluti af hópnum var til mikilla vandræða og með mjög vafasama hegðun. Skemmdarverk voru unnin á Ölveri rétt eins og á vellinum sjálfum.

Eftir leikinn gekk svo hópur af fótboltabullum Bröndby fylktu liði að Ölveri þar sem brutust út blóðug slagsmál eins og fjallað er um á Vísi en enginn endaði þó á slysadeild sem betur fer.

Dönskum fótbolta til skammar
Eins og áður segir voru það ekki bara stuðningsmennirnir sem urðu sér til skammar í gær. Lið Bröndby beið afhroð í leiknum og samkvæmt skýrslu Kára Snorrasonar, fréttamanns Fótbolta.net, frá vellinum var Frederik Birk þjálfari danska liðsins með hrokafulla og leiðinlega framkomu.

„Frederik Birk, þjálfari Bröndby, á þetta skilið ekki einungis fyrir úrslitin gegn Víkingi, þó svo hann hafi tapað með lið sem metið er á um það bil átta sinnum meira en andstæðingurinn. Nokkru eftir leikinn, reyndi undirritaður að hafa uppi á Birk til að fá stutt viðtal, sem reyndist hægara sagt en gert. Eftir nokkra leit fannst þjálfarinn í miðju spjalli við einhvern í teymi Bröndby. Hann afþakkaði beiðnina um viðtal með skæting og sagði, með hinum aðlaðandi danska hreim: „No, I’m finished now,“ og yrti ekki meir á mig. Aftur reyni ég að nálgast hann, þá í von bara um örfá orð. En viðbrögðin takmörkuð, ekki nema einhverjar hreytingar sem ég fékk til baka. Eftir örlitla stund, létt sleginn yfir dónaskap þess danska, stóð ég enn á sama stað og fékk enn ákveðnari svör, nú með ýktari hreim: „We’re still talking, please go!“ Lengi lifi danski hrokinn!" skrifar Kári.

Óhætt er að segja að heimsókn Bröndby til Íslands í gær hafi sett ljótan blett á danskan fótbolta hvert sem litið er.
Athugasemdir
banner
banner