PSG býst við tilboðum í Donnarumma - Newcastle í framherjaleit - Hvert fer Jackson?
   lau 09. ágúst 2025 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Zabarnyi og Chevalier kynntir til leiks á næstu dögum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Paris Saint-Germain er að ganga frá félagaskiptum Illya Zabarnyi úr röðum Bournemouth en hann mun kosta tæplega 70 milljónir evra.

Bournemouth verður þá búið að missa báða byrjunarliðsmiðverðina sína en félagið er að vinna hörðum höndum að því að finna arftaka. Koni De Winter leikmaður Genoa hefur verið nefndur til sögunnar ásamt Bafode Diakite hjá Lille.

Bournemouth hafnaði síðasta tilboði frá PSG sem hljóðaði upp á 63 milljónir evra en mun að öllum líkindum samþykkja næsta tilboð.

Zabarnyi er 22 ára gamall og vakti mikinn áhuga á síðustu leiktíð. Það voru ýmis félög sem vildu kaupa hann í sínar raðir en Zabarnyi var alltaf viss um að hann vildi flytja til Parísar. Hann er búinn að samþykkja fimm ára samning hjá félaginu.

PSG er einnig að ganga frá kaupum á markverðinum Lucas Chevalier sem kemur úr röðum Lille fyrir rúmlega 40 milljónir evra.

Þetta eru fyrstu tveir leikmennirnir sem PSG kaupir í sumar. Zabarnyi á að fylla í skarðið sem Milan Skriniar skilur eftir með félagaskiptum sínum til Fenerbahce, á meðan Chevalier mun hrifsa byrjunarliðssætið af Gianluigi Donnarumma sem er aðeins með eitt ár eftir af samningi og er til sölu.

Donnarumma hefur verið einn af allra fremstu markvörðum heims síðustu árin en Chevalier þykir enn betri.

Zabarnyi er úkraínskur landsliðsmaður með 49 leiki að baki. Chevalier er 23 ára og á eftir að spila fyrir A-landslið Frakka en hefur leikið 13 leiki fyrir yngri landsliðin.

   02.08.2025 10:00
Donnarumma mun þurfa að sætta sig við bekkjarsetu

Athugasemdir
banner