
„Þessi sigur var yndislegur og rúmlega það," sagði Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, þegar hann ræddi við Fótbolta.net eftir 3-2 endurkomusigur á Leikni í Lengjudeildinni í kvöld.
Grindavík lenti 0-2 undir snemma leiks en kom til baka og vann mjög svo sætan 3-2 sigur.
Grindavík lenti 0-2 undir snemma leiks en kom til baka og vann mjög svo sætan 3-2 sigur.
Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 2 Leiknir R.
„Þetta var erfiður leikur. Við byrjum hann illa, þeir komast í 1-0 og svo skorar Shkelzen bara flottasta mark tímabilsins. Það hefði rotað marga held ég en mér fannst við taka öll völd út hálfleikinn. Við jöfnum og svo fannst mér þetta verðskuldaður sigur. Ég er hæstánægður."
Adam Árni Róbertsson, fyrirliði Grindavíkur, skoraði þrennu í kvöld og var stórkostlegur.
„Adam er búinn að fara upp og niður. Það er búið að reyna mikið á hann á þessu tímabili. Líkamlega hefur hann þurft að spila 90 mínútur í öllum leikjum. Hann hefur fengið tvö rauð spjöld en er búinn að skora 10 mörk í deildinni. Hann er algjörlega ómetanlegur fyrir okkur og ég er virkilega glaður fyrir hans hönd," sagði Haraldur Árni. „Það er ekki slæmt að vera með svona senter."
Er ekki skemmtilegast að vinna leiki svona?
„Ég veit það ekki. Eftir á, jú að sjálfsögðu. Við gerðum þetta á móti Fjölni líka. Mér leið ekkert vel en þetta er hrikalega sterkt fyrir okkur og sýnir hugarfarið. Það hefur gengið illa en trúin er alltaf til staðar. Við erum góðir en þurfum bara að draga það fram. Það að snúa leiknum, sækja sigurinn og verja hann í lokin gefur okkur mjög mikið," sagði þjálfari Grindvíkinga en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir