Víkingur R. 3 - 0 Bröndby
1-0 Nikolaj Hansen ('44 )
2-0 Oliver Ekroth ('47 )
3-0 Viktor Örlygur Andrason ('82 )
Lestu um leikinn
1-0 Nikolaj Hansen ('44 )
2-0 Oliver Ekroth ('47 )
3-0 Viktor Örlygur Andrason ('82 )
Lestu um leikinn
Víkingar unnu ótrúlegan og sögulegan 3-0 sigur á Bröndby í 3. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á Víkingsvellinum í kvöld.
Allt getur gerst á heimavelli hamingjunnar og það sönnuðu Víkingar með góðri spilamennsku. Þeim tókst að halda ágætlega í boltann og vörðust sem heild þegar á reyndi.
Nikolaj Hansen bjargaði meistaralega á línu eftir tæpan hálftíma er aukaspyrna Bröndby kom inn á teiginn. Pálmi Rafn Arinbjörnsson varði boltann í leikmann Bröndby og boltinn á leið yfir línuna áður en Hansen kom boltanum frá.
Hansen var ógnandi fram á við og átt nokkra sénsa áður en hann tók forystuna fyrir Víking. Gylfi Þór Sigurðsson setti hornspyrnuna á nær á Hansen sem setti hnakkann í boltann, í slá og inn, og ætlaði allt að tryllast í Víkinni.
Blaut tuska í andlit danska liðsins og nýttu Víkingar sér sjokkið sem Bröndby var í með því að bæta við öðru snemma í þeim síðari og var það sama uppskrift og í fyrra markinu.
Gylfi Þór með hornspyrnu á nær og í þetta sinn var það Oliver Ekroth sem stangaði boltann í netið.
Þegar hálftími var eftir var Gylfi nálægt því að komast á blað er hann fékk boltann við vítateiginn en skot hans hafnaði í stöng.
Víkingar voru ekki nógu sáttir við tveggja marka forystu og héldu áfram að skapa sér urmul af færum. Ekroth átti viðstöðulaust skot rétt framhjá markinu og þá setti Valdimar Þór Ingimundarson annað skot rétt framhjá.
Þriðja markið kom fyrir rest sem reyndist enn eitt áfallið fyrir Bröndby. Víkingar keyrðu í hraða skyndisókn og var það Erlingur Agnarsson sem kom boltanum fyrir á Viktor Örlyg Andrason sem var ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í netið.
Pálmi Rafn átti flottan leik í markinu og tók nokkrar mikilvægar vörslur, og eina svakalega mikilvæga undir lokin er Nicolai Vallys tók þrumuskot, en Pálmi var með allt í teskeið og varði skotið.
Stórkostlegur sigur Víkinga staðreynd sem fara með þriggja marka forystu til Kaupmannahafnar. Á sama tíma niðurlægjandi fyrir Danina sem munu næstu daga þurfa að lesa niðrandi fyrirsagnir um sig á dönsku miðlunum.
Liðin mætast öðru sinni í næstu viku og mun sigurvegarinn mæta franska liðinu Strasbourg í umspilinu.
Athugasemdir