Man Utd hefur áhuga á að fá Baleba frá Brighton - Everton í viðræðum um Grealish - Newcastle vill McGinn
   fim 07. ágúst 2025 21:25
Brynjar Ingi Erluson
Stuðningsmenn Bröndby kalla eftir höfði þjálfarans - „Afhroð á eldfjallaeyjunni“
Víkingur vann ótrúlegan sigur á Bröndby
Víkingur vann ótrúlegan sigur á Bröndby
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danskir fjölmiðlar segja Bröndby hafa verið niðurlægt í 3-0 tapi liðsins gegn Víkingi í fyrri leiknum í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á Víkingsvellinum í kvöld og þá kalla stuðningsmenn félagsins eftir höfði þjálfarans.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  0 Bröndby

Víkingar verðskulduðu sigurinn og rúmlega það. Föstu leikatriðin voru upp á tíu og þannig komu fyrstu tvö mörkin. Gylfi Þór Sigurðsson kom horninu á nær á Nikolaj Hansen og síðar Oliver Ekroth, en þriðja markið eftir góða skyndisókn sem Viktor Örlygur Andrason kláraði.

Svakalegur sigur Víkinga og um leið sögulegur gegn danska stórveldinu, en það er allt brjálað heima í Danmörku enda úrslitin álitin skammarleg fyrir félagið.

„Skömm Bröndby: Algjör niðurlæging á Íslandi,“ var skrifað við fyrirsögn hjá danska miðlinum Bold og tók Tipsbladet þetta aðeins lengra.

„Það væri eiginlega ótrúlegt að taka aðeins einn leikmann Bröndby fyrir eftir þetta afhrofð á þessari eldfjallaeyju. Við erum að daðra við eitt versta Evrópuævintýri hjá dönsku liði í sögunni og það sem Bröndby hafði fram að færa var í raun skammarlegt. Þetta var í 14. sinn sem Bröndby mistekst að vinna útileik í Evrópukeppni. Þátttaka liðsins í Evrópukeppni var og verður áfram martröð fyrir þá bláu og gulu,“ segir í frétt Tipsbladet.

Stuðningsmenn voru ekkert hressari en miðlarnir. Þeir kalla eftir höfði Frederik Birk, þjálfara liðsins, og segja þessi úrslit ekki boðleg fyrir lið af þessari stærðargráðu.

„Þetta er ekki bara tap, heldur skandall. Komið Birk í burtu! Hann eyðileggur alla gleði fyrir mér og mínu ástsæla Bröndby,“ skrifaði einn á X, og þá gekk annar aðeins lengra; „Stjórnin er algerlega vanhæf ef hún verður ekki búin að reka þjálfarateymið fyrir morgundaginn.“

Allt í steik þarna hjá Bröndby sem fær Víking í heimsókn í næstu viku. Það verður erfitt að vinna upp þriggja marka forskot, og sérstaklega þegar liðið spilar eins og það gerði í kvöld.
Athugasemdir
banner