
„Mér líður bara hörmulega," sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Leiknis, eftir 3-2 tap gegn Grindavík í Lengjudeildinni í kvöld.
„Við komumst í 2-0 og ég hélt að við myndum ganga á lagið þar, slátra þessum leik. En við förum í einhvern varnargír og dettum fulllangt niður með vindi, í staðinn fyrir að stíga upp og sýna hungur og vilja til að bæta við."
„Við komumst í 2-0 og ég hélt að við myndum ganga á lagið þar, slátra þessum leik. En við förum í einhvern varnargír og dettum fulllangt niður með vindi, í staðinn fyrir að stíga upp og sýna hungur og vilja til að bæta við."
Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 2 Leiknir R.
Grindavík jafnaði metin fyrir hálfleik og skoraði svo sigurmarkið í lokin.
„Þetta er ekki gott fyrir framhaldið. Við þurfum að stíga upp. Það er stutt í næsta leik sem verður hörku fallbaráttuslagur fyrir Fylki," sagði Gústi.
Eins og Gústi nefnir þá kemst Leiknir í 2-0 og tilfinningin var þá sú að Grindvíkingarnir myndu brotna, en annað kom á daginn.
„Í rauninni brotnum við það frekar að komast í 2-0, sem er með ólíkindum. Grindvíkingarnir koma sterkir til baka af því við leyfðum þeim það."
Við þurfum á því að halda að fá ný andlit
Líklega er þetta merki liðs sem er með afskaplega lítið sjálfstraust. Leiknir er á botni Lengjudeildarinnar með tíu stig og útlitið er ekki gott.
„Við hleypum Grindvíkingunum mjög langt frá okkur og þeir eru komnir í góða stöðu. Það eru önnur lið þarna niðri en þeir fóru ofar þegar við ætluðum að nálgast þá. Því miður náum við ekki að brúa bilið og töpum enn einum leiknum. Við þurfum að fara að snúa þessu okkur í vil," sagði Gústi.
Félagaskiptaglugginn lokar eftir helgi. Ætla Leiknismenn að bæta við sig?
„Við erum búnir að reyna það en það er lítill áhugi fyrir því að koma í Breiðholtið eins og staðan er. Við höldum bara áfram og reynum að styrkja liðið. Við lendum í tveimur meiðslum í dag sem er ekki gott fyrir framhaldið. Við þurfum á því að halda að fá ný andlit."
Af hverju er lítill áhugi fyrir því að koma í Breiðholtið?
„Kannski bara staðan (í deildinni). Það er góð hefð í Breiðholtinu. Þetta er félag sem hefur spilað oft í úrvalsdeild og gert góða hluti. Það er eins og menn séu ekki tilbúnir að taka áskoruninni að koma og hjálpa okkur að halda okkur í deildinni. Ég tek vel á móti mönnum ef þeir eru tilbúnir að koma. Ég skal gera þá að hetjum ef þeir hjálpa okkur að halda sætinu í deildinni," sagði Gústi að lokum.
Athugasemdir