Spænski landsliðsfyrirliðinn Álvaro Morata er að ganga til liðs við Como í ítalska boltanum. Fabrizio Romano hefur sett „here we go!" stimpilinn á félagaskiptin.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir Como sem hefur verið að vinna að skiptunum í allt sumar.
Como fær Spánverjann á lánssamningi frá AC Milan með kaupskyldu. Heildarupphæðin nemur um 15 milljónum evra.
Fimm af þessum milljónum renna til tyrkneska stórveldisins Galatasaray sem hafði greitt til að fá Morata lánaðan í eitt og hálft ár í janúar. Morata gerði flotta hluti í tyrkneska boltanum en var ekki með fast sæti í byrjunarliðinu vegna Victor Osimhen. Tyrkirnir neituðu að leyfa honum að fara í sumar án þess að fá hlutfallslega endurgreiðslu á lánskostnaðinum.
Milan fær því um 10 milljónir í kassann fyrir Morata, sem verður 33 ára gamall í október. Talið er að hann geri þriggja ára samning við Como.
Como er í stórsókn í sumar eftir að hafa tekist að halda í eftirsóttan þjálfara sinn Cesc Fábregas.
Ítalska félagið er þegar búið að krækja sér í Jesús Rodríguez, Nicolas Kühn, Martin Baturina, Jayden Addai, Máximo Perrone, Álex Valle, Jacobo Ramón, Fellipe Jack og Samuele Pisati í sumar. Þeir hafa kostað rétt tæpar 100 milljónir evra samanlagt.
Félagið er þá eingöngu búið að selja einn leikmann, brasilíski kantmaðurinn Gabriel Strefezza er farinn til Olympiakos.
04.08.2025 06:00
Galatasaray tefur fyrir skiptum Morata til Como
Athugasemdir