PSG býst við tilboðum í Donnarumma - Newcastle í framherjaleit - Hvert fer Jackson?
   lau 09. ágúst 2025 11:57
Brynjar Ingi Erluson
Shaw sagður brjálaður út í Amorim
Luke Shaw
Luke Shaw
Mynd: EPA
Ruben Amorim valdi sex leikmenn í leiðtogahópinn
Ruben Amorim valdi sex leikmenn í leiðtogahópinn
Mynd: EPA
Luke Shaw, leikmaður Manchester United á Englandi, er sagður brjálaður út í portúgalska stjórann Ruben Amorim fyrir að hafa ekki valið hann í leiðtogahóp liðsins fyrir komandi leiktíð.

Amorim valdi sex leikmenn til þess að leiða liðið áfram á tímabilinu og kom mörgum á óvart að Shaw hafi ekki verið í hópnum.

Bruno Fernandes verður áfram fyrirliði liðsins, en með honum í hópnum eru þeir Harry Maguire, Diogo Dalot, Noussair Mazraoui, Lisandro Martínez og Tom Heaton.

Sun segir Shaw afar ósáttan með að hafa ekki fengið kallið í hópinn og er Amorim meðvitaður um tilfinningar enska leikmannsins.

Amorim vonast eftir því að þetta verði til þess að Shaw nýti reiðina til þess að bæta frammistöðu sína, en stjórinn er sagður vonsvikinn með framlag hans á undirbúningstímabilinu.

Ákefðin hefur ekki verið til staðar og hafa vaknað upp spurningar um það hvort hann sé í raun klár í tímabilið.

Það kemur á óvart að Shaw hafi ekki verið tekinn inn í hópinn en hann hefur verið á mála hjá United frá 2014 og upplifað afar stormasama tíma. United kann að meta hans reynslu og skilning hans á menningu félagsins.

Shaw, sem er samningsbundinn United til 2027, byrjar ekki gegn Fiorentina í síðasta æfingaleik undirbúningstímabilsins í dag, en Amorim kýs frekar að nota danska leikmanninn Patrick Dorgu sem kom frá Lecce í byrjun árs.

Amorim íhugaði einnig að taka hinn unga og efnilega Leny Yoro inn í leiðtogahópinn, en taldi þetta ekki vera rétta tímann til þess að innleiða hann.
Athugasemdir