Allt bendir til að Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum þjálfari ÍA og fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari, muni taka við FH að tímabilinu á Íslandi loknu.
Jói Kalli er að þjálfa danska C-deildarliðið AB og er liðið á toppi deildarinnar eftir tíu umferðir. Landsliðsmaðurinn og sonur Jóa Kalla, Ísak Bergmann, var spurður út í stöðu pabba síns í viðtali við Fótbolta.net í gærdag.
„Hann er búinn að gera frábæra hluti út í AB, þeir eru efstir. Svo eru hlutir sem munu skýrast á næstu vikum. Þið munuð líklegast fá að sjá hvað gersist, hvort að hann verði áfram úti eða hann komi aftur heim. Þið verðið að bíða og sjá, ég get ekki gefið neitt upp.“
Ísak kemur af mikilli Skagafjölskyldu, en hann var spurður hvort að það myndi vera erfitt að sjá pabba sinn stýra öðru liði en ÍA á Íslandi.
„Nei, ég hef alltaf séð hann fyrir mér að taka við stóru liði á Íslandi. Hann er með skemmtilegan fótbolta úti og þeir eru í efsta sæti. Ef hann fær lið hérna á Íslandi sem á að vera í toppbaráttu, þá held ég að hann geri mjög vel.“
„Það á að vera sóknarbolti í leikstílnum sem hann spilar og ef hann fær topplið með góðum leikmönnum þá held ég að hann geri mjög vel á Íslandi.“