Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mið 09. desember 2020 20:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ég er sveitastelpa, en held að mér muni líða mjög vel hér"
Mér líst rosalega vel á að vera búin að semja við AC Milan, stórt félag og ítalska deildin er á uppleið.
Mér líst rosalega vel á að vera búin að semja við AC Milan, stórt félag og ítalska deildin er á uppleið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta var nokkuð klárt mjög fljótlega eftir að áhuginn varð ljós og ég í alvörunni veit ekki hvers vegna þetta tók þetta langan tíma.
Þetta var nokkuð klárt mjög fljótlega eftir að áhuginn varð ljós og ég í alvörunni veit ekki hvers vegna þetta tók þetta langan tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég er nýbyrjuð að æfa en auðvitað vona ég það. Keppnisskapið í mér býst við því að ég byrji leikinn.
Ég er nýbyrjuð að æfa en auðvitað vona ég það. Keppnisskapið í mér býst við því að ég byrji leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ég talaði við hana og spurði hana almennt út í félagið og fékk að heyra frá henni hvernig hennar reynsla var
Ég talaði við hana og spurði hana almennt út í félagið og fékk að heyra frá henni hvernig hennar reynsla var
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég held það skili mér ekki í byrjunarliðið að ég spili erlendis
Ég held það skili mér ekki í byrjunarliðið að ég spili erlendis
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mér finnst að nú sé góður tímapunktur fyrir mig að vera hér og ná vonandi að vaxa eins og deildin er að vaxa
Mér finnst að nú sé góður tímapunktur fyrir mig að vera hér og ná vonandi að vaxa eins og deildin er að vaxa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er stödd á Ítalíu, í Napoli," svaraði Guðný Árnadóttir þegar Fótbolti.net sló á þráðinn til hennar í dag og fréttaritari spurði hvar hún væri staðsett í heiminum. Guðný gekk í raðir AC Milan frá Val í síðustu viku og við undirskrift var vitað að hún yrði út leiktíðina að láni hjá Napoli. Bæði lið leika í efstu deild á Ítalíu.

Meiri líkur á mínútum hjá Napoli - Markmiðið klárt
„Mér líst rosalega vel á að vera búin að semja við AC Milan, stórt félag og ítalska deildin er á uppleið. Mér líst einnig vel á að vera hjá Napoli út leiktíðina. Tímabilið er byrjað hér á Ítalíu og Milan hefur farið vel af stað, liðið fengið á sig fá mörk, svo það voru ekki beint í kortunum breytingar á varnarlínunni."

Guðný er tvítugur miðvörður sem hefur undanfarin tvö ár leikið með Val og varð Íslandsmeistari með liðinu sumarið 2019. Hún kom til félagsins frá FH þar sem hún hóf sinn meistaraflokksferil en hún lék áður með Sindra í yngri flokkum.

„Miðað við Milan þá vantaði frekar leikmann í mína stöðu í þetta lið og hér eru því vonandi meiri líkur á mínútum á vellinum, tækifæri á að spila og læra inn á umhverfið. Napoli hefur ekki gengið nógu vel í byrjun tímabilsins. Þetta er fínt lið, ég er spennt fyrir þessu verkefni og fyrsti leikur er um næstu helgi."

Guðný skrifar undir tveggja og hálfs árs samning við AC Milan. Guðný kom hér áður inn á það að Milan hafi byrjað tímabilið vel í deildinni en Napoli er hins vegar í botnsæti deildarinnar þegar níu umferðir af 22 eru búnar. Er markmiðið skýrt hjá Napoli, að halda sæti sínu í deildinni?

„Það er klárt markmið og miðað við það sem ég hef séð hefur liðið fulla burði til að halda sér uppi í deildinni. Þær spiluðu gegn Juventus um síðustu helgi og áttu mjög góðan leik. Það endaði með eins marks tapi og það er svolítið sagan á tímabilinu, töp með minnsta mun. Liðið þarf að fá trúna á markmiðinu og þá gæti þetta smollið. Leikurinn um næstu helgi gæti skipt miklu máli og væri mjög gott fyrir liðið að ná inn sigri þar upp á framhaldið að gera."

Býst Guðný við að spila þann leik? Napoli leikur gegn Verona á heimavelli á sunnudag.

„Ég er nýbyrjuð að æfa en auðvitað vona ég það. Keppnisskapið í mér býst við því að ég byrji leikinn."

Veit ekki hvers vegna ferlið tók þetta langan tíma
Fyrst heyrðist af áhuga á Guðnýju erlendis frá undir lok október mánaðar en tæpum einum og hálfum mánuði seinna var gengið frá skiptunum, hvers vegna tóku skiptin þetta langan tíma?

„Já, góð spurning. Þetta var nokkuð klárt mjög fljótlega eftir að áhuginn varð ljós og ég í alvörunni veit ekki hvers vegna þetta tók þetta langan tíma. Þetta var alltaf bara bið eftir því að þetta kláraðist. Það tekur allt sinn tíma hérna hefur maður heyrt og Covid-ástandið hjálpaði ekki til. Það voru fleiri leyfi sem þurfti að græja."

Deildin á uppleið og Guðný vonast til að vaxa í takti við það
Hvað var það sem heillaði við Milan?

„Þetta er stórt lið og á sama tíma er ítalska deildin á uppleið, hún hefur ekki alltaf verið hátt skrifuð. Mér finnst að nú sé góður tímapunktur fyrir mig að vera hér og ná vonandi að vaxa eins og deildin er að vaxa. Við sáum það fyrr í dag að Juventus var að spila á móti Lyon í Meistaradeildinni og það var hörkuleikur."

Ætlaði út núna eða eftir næsta tímabil
Guðný æfði með Kristianstad árið 2016 og í október var sænska liðið nefnt sem mögulegur áfangastaður ef Norðurlöndin yrðu fyrir valinu hjá Guðnýju. Guðný kvaðst ekki hafa íhugað önnur lið en Milan og um leið og áhuginn var ljós hjá ítalska félaginu hafi hún verið spennt fyrir því að halda þangað. En hafði komið upp sú staða á síðustu árum að fara erlendis í atvinnumennsku?

„Nei í rauninni ekki. Ég fór í Val fyrir tveimur árum með það fyrir huga að vera þar í tvö ár. Kannski vegna þess að ég var svo staðráðin í að vera þar í tvö ár þá var ég ekki að pæla í því að fara erlendis. Þegar ákvörðunin var tekin að fara í Val þá var hugsunin að spila fyrir annað lið á Íslandi. Planið var alltaf núna eða eftir næsta tímabil."

Guðný hefur lokið framhaldsskólanámi. Spilar það inn í hvers vegna hún er nú haldin erlendis?

„Já, það gerir það að einhverju leyti. Maður var aldrei að spá í að fara erlendis á meðan maður var í skóla. Núna eftir skólann er maður einhvern veginn lausari frá öllu."

Ræddi við Berglindi áður en ákvörðunin var tekin
Landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir var að láni hjá Milan fyrri hluta ársins. Ræddi Guðný við Berglindi áður en hún skrifaði undir í Milan?

„Já, ég talaði við hana og spurði hana almennt út í félagið og fékk að heyra frá henni hvernig hennar reynsla var. Hennar svör höfðu svo sem engin úrslitaáhrif, þau voru í samræmi við hvernig ég hafði búist við að hlutirnir væru."

Erfitt en var búin að taka ákvörðun
Guðný lék ekki með Val í útsláttarkeppninni nú í haust vegna félagaskiptanna. Hún var á bekknum gegn HJK en ekki í leikmannahópnum gegn Glasgow þegar Valur féll úr leik. Var það vegna félagaskiptanna?

„Já, félagaskiptin voru komin í ferli. Ég var komin út þegar Glasgow-leikurinn var. Þetta var að sjálfsögðu erfitt að geta ekki tekið þátt en ég var búin að taka þessa ákvörðun og var mjög sátt með hana, Meistaradeildin þurfti aðeins að bíða. Þetta var bæði erfitt en líka gaman að horfa á stelpurnar. Mér fannst það erfiðara þegar ég var komin út að fylgjast með stelpunum detta út þar sem þær áttu meira skilið gegn Glasgow."

„Held það skili mér ekki í byrjunarliðið að ég spili erlendis"
Guðný á að baki átta A-landsleiki og lék hún sinn fyrsta leik í undankeppni nú í haust. Horfir hún á stöðu sína í A-landsliðinu þegar hún ákveður að halda erlendis?

„Nei, í rauninni ekki. Ég held að maður eigi að geta spilað með A-landsliðinu hvort sem maður spilar erlendis eða heima á Íslandi. Ég er í rauninni að horfa á þetta út frá því að ná mér sjálf í persónulega reynslu, að prófa eitthvað nýtt, spila öðruvísi fótbolta og bæta mig sem fótboltakonu. Ég held það bæti mann að spila í öðru umhverfi. Auðvitað vona ég að það skili mér einhverju [varðandi landsliðið] en ég er ekki að hugsa það út frá því. Ég held það skili mér ekki í byrjunarliðið að ég spili erlendis."

Úr stórbæjum Suðurlands í þriðju stærstu borg Ítalíu
Að lokum, hvernig er fyrir Guðnýju að vera komna til Napoli, þar sem búa tæplega milljón manns, eftir að hafa búið í Vík í Mýrdal og á Höfn í Hornafirði í æsku?

„Það er smá breyting," sagði Guðný og hló.

„En það er covid-ástand og því hef ég ekki náð að gera mikið. Ég er ekki búin að komast mikið út til að kynnast öllu hér. Þetta er svo miklu stærra samt, maður sér það strax. Ég veit ekki alveg... ég er sveitastelpa en held að mér muni líða mjög vel hér," sagði Guðný.

Rætt er um félagaskipti Guðnýjar í hlaðvarpsþættinum ítalski boltinn sem nálgast má hér að neðan.
Ítalski boltinn - Íslendingur til Napoli eftir 107 ára bið!
Athugasemdir
banner
banner
banner