Jamaíkumaðurinn Michail Antonio verður frá í að minnsta kosti eitt ár frá fótbolta en þetta segir enski vefmiðillinn Guardian.
Antonio, sem er 34 ára gamall, lenti í skelfilegu bílslysi við Essex, sem er í nágrenni við Lundúnir, um helgina. Bíllinn var gjörónýtur eftir slysið og var Antonio fastur í minnst klukkutíma áður en hægt var að bjarga honum.
Framherjinn var fluttur með sjúkraflugi á spítala og sendur beint í aðgerð á fótum.
Miðað við ástand bifreiðarinnar fór töluvert betur en á horfðist, en slysið gæti mögulega hafa kostað hann ferilinn.
Guardian segir að Antonio verði að minnsta kosti frá í ár sem eru bestu batahorfur hans, en þær verstu er að hann gæti neyðst til að leggja skóna á hilluna.
Markaskorarinn mikli er á leið í langa og stranga endurhæfingu, en West Ham mun væntanlega uppfæra stöðuna á honum reglulega næstu mánuði.
Antonio er markahæsti leikmaður West Ham frá því enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar árið 1992 með 68 mörk á tíum árum hans hjá félaginu.
Athugasemdir