Graham Potter nýr þjálfari West Ham svaraði spurningum eftir tap liðsins á útivelli gegn Aston Villa í FA bikarnum í kvöld.
Hamrarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 0-1 en misstu forystuna í síðari hálfleik þegar heimamenn í liði Aston Villa skiptu um gír og verðskulduðu að snúa stöðunni við. Þeir jöfnuðu með marki eftir hornspyrnu áður en Morgan Rogers gerði sigurmark fimm mínútum síðar.
„Við byrjuðum leikinn virkilega vel, við vorum vel skipulagðir og hættulegir í okkar sóknaraðgerðum. Okkur tókst að takmarka Villa í öllum þeirra aðgerðum," sagði Potter eftir tapið, en hann var mættur á hliðarlínuna í fyrsta sinn síðan hann var rekinn frá Chelsea undir lok þarsíðustu leiktíðar.
„Þeir stigu upp í seinni hálfleik og við ógnuðum lítið sóknarlega eftir að hafa misst Füllkrug og Summerville í meiðsli. Þeir sköpuðu sér samt ekki mikið af færum, við vörðumst vel. Þeir héldu okkur undir mikilli pressu og nýttu svo færin sem þeir fengu. Ég held að jöfnunarmarkið hafi ekki átt að vera hornspyrna til að byrja með.
„Við leituðum að jöfnunarmarki á lokakaflanum og fengum færi en gátum ekki skorað."
Potter segist vera mjög ánægður með að vera kominn aftur í þjálfarastarf og er hann sáttur með hvernig leikmenn West Ham hafa tekið honum.
„Leikmennirnir hérna hafa verið frábærir síðan ég tók við, þeir leggja mikla vinnu á sig og þeim er augljóslega ekki sama um hvernig liðinu gengur. Þeir eru með frábært hugarfar og það er mjög mikilvægt fyrir mig."
Athugasemdir