Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   lau 10. ágúst 2024 18:10
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Blikar unnu eftir frábæra skemmtun
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 4 - 2 Þór/KA
1-0 Birta Georgsdóttir ('21)
1-1 Lara Ivanusa ('45)
2-1 Katrín Ásbjörnsdóttir ('51)
2-2 Sandra María Jessen ('53)
3-2 Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir ('61)
4-2 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir ('77)

Lestu um leikinn: Breiðablik 4 -  2 Þór/KA

Breiðablik tók á móti Þór/KA í stórleik dagsins í Bestu deild kvenna og úr varð mikil skemmtun.

Blikar voru sterkari í byrjun og tóku forystuna þegar Birta Georgsdóttir skoraði eftir vandræðagang í vörn Akureyringa á 21. mínútu.

Breiðablik var áfram sterkara liðið en tókst ekki að tvöfalda forystuna. Þess í stað vaknaði Þór/KA til lífsins og átti skot í slá áður en Lara Ivanusa jafnaði metin á síðustu sekúndunum fyrir leikhlé.

Lara skoraði eftir vel útfærða sókn þar sem sóknarleikmenn Þórs/KA spiluðu boltanum vel á milli sín áður en Lara lét vaða.

Síðari hálfleikurinn byrjaði af krafti þar sem Sandra María Jessen skaut í slá fyrir Þór/KA skömmu áður en Katrín Ásbjörnsdóttir tók forystuna á ný fyrir Blika.

Katrín skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf sem fór af Birtu Georgsdóttur og voru einhverjir sem vildu sjá rangstöðuflaggið fara á loft, sem gerðist þó ekki.

Tæpum tveimur mínútum síðar jafnaði Sandra María metin á ný eftir að hafa sloppið í gegn og var staðan því 2-2 eftir 53 mínútur.

Það var þá sem heimakonur skiptu um gír í Kópavogi og gerðu út um viðureignina með tveimur mörkum. Fyrst skoraði Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir með stórglæsilegu viðstöðulausu skoti eftir hornspyrnu, áður en Vigdís Lilja Kristjánsdóttir tvöfaldaði forystuna á 77. mínútur og gerði út af við leikinn um leið.

Bæði lið fengu góð færi til að skora í gríðarlega opnum síðari hálfleik en lokatölur urðu 4-2. Verðskuldaður sigur fyrir Breiðablik sem hefði getað skorað fleiri mörk.

Birta var atkvæðamest í liði Blika með eitt mark og tvær stoðsendingar.

Breiðablik er í öðru sæti Bestu deildarinnar eftir þennan sigur, með 42 stig eftir 16 umferðir - einu stigi á eftir toppliði Vals.

Þór/KA er í þriðja sæti með 28 stig, tveimur stigum fyrir ofan Víking R.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner