Thomas Tuchel, þjálfari enska landsliðsins, mátti til með að hrósa varnarmanninum Marc Guehi sérstaklega eftir frammistöðu hans í landsliðsverkefninu í þessum mánuði.
Síðustu dagar hafa verið Guehi erfiðir en hann var á leið til Liverpool undir lok félagaskiptagluggans áður en Crystal Palace tók ákvörðun um að halda honum,
Guehi var mættur í læknisskoðun hjá Liverpool og að ganga frá sínum málum, en Palace fann ekki varnarmann í stað hans og hafa þá enskir fjölmiðlar talað um að Oliver Glasner, stjóri liðsins, hafi hótað að segja starfi sínu lausu ef Guehi yrði seldur.
Steve Parish, stjórnarformaður Palace, þorði því ekki öðru en láta þetta eftir Glasner og missir Guehi af stóru tækifæri sem mun þó vissulega koma aftur á næsta árinu.
Guehi hefur hagað sér eins og fagmaður í gegnum allt ferlið, og sást það greinilega í landsleikjaverkefninu að andlega hliðin er upp á tíu hjá honum. Hann var frábær gegn Andorra og tókst síðan að skora og leggja upp í 5-0 stórsigrinum á Serbíu.
„Hann er bara skýrt dæmi um hvernig strákarnir voru í þessu landsliðsverkefni. Þeir voru nákvæmlega svona. Þeir settu persónulega hagsmuni til hliðar og var Guehi besti mögulegi liðsfélagi sem hægt var að hugsa sér. Hann skilaði frábærri frammistöðu.“
„Hann hefur verið svakalega sterkur með Crystal Palace og sýndi það líka hér,“ sagði Tuchel við ITV.
Guehi hefur verið í heimsklassa í byrjun leiktíðar og eðlilegt að Barcelona og Real Madrid ætli sér að veita Liverpool harða samkeppni um Englendinginn.
Athugasemdir