KR er í botnsæti Bestu-deildarinnar eftir tap gegn ÍA í síðustu umferð. Liðið er þremur stigum frá öruggu sæti þegar þrjár umferðir eru eftir. Magnús Haukur Harðarson, sérfræðingur Fótbolta.net, segir í Innkastinu að ef allt væri eðlilegt myndi KR falla.
„Eftir að ég horfði á þennan leik þá hugsaði ég með mér, Afturelding er mögulega með lélegasta liðið í deildinni en KR er með næst lélegasta liðið í deildinni og í dag er ég ekki svo viss um að KR er með betra lið en Afturelding,“ sagði Valur Gunnarsson í Innkastinu á mánudag.
Því næst tekur Magnús Haukur Harðarsson til máls og segir skrítið að Atli Sigurjónsson fái lítinn spiltíma.
„Það er mikið búið að tala um þetta lið og svo framvegis. En meðalaldur KR-liðsins í leiknum á undan, og ég held að það sé svipað þarna, er 27 ár. Hvaða verkefni er það sem er í gangi? Þessir ungu KR-ingar sem voru fengnir heim sitja á bekknum og fá ekki mínútur.“
„Þetta minnir mig á Bjarna Guðjónsson þegar hann tók við Fram 2014. Hann sótti einhverja 20 leikmenn úr ýmsum liðum. Það stóðu allir á öndinni: Hvaða snilld er að fara gerast hérna? En svo bara endar þetta í algjörum apaskít. Ég meina KR er að fara falla ef allt er eðlilegt,“ segir Magnús.
Valur Gunnarsson skýtur inn í og segir hópinn ekki frábæran en segir hann þó vera hópinn hans Óskars. Magnús svarar um hæl:
„Það er búið að heilaþvo alla þarna í Vesturbænum, sama hvað menn tala og annað. Menn eru bara í einhverjum sveppatrippum þarna.“
Næsti leikur KR er gegn Aftureldingu á Meistaravöllum næstkomandi laugardag, en frekari umræðu um KR og Bestu-deildina má hlusta á í Innkastinu hér fyrir neðan.