Man Utd hefur áhuga á Valverde - Guehi gæti farið til Tottenham - Frank hefur líka áhuga á Collins
   mið 01. október 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Útskýrir hvers vegna Davíð Smári var látinn fara
'Ákvörðun sem þessi er tekin með góðri trú og hagsmuni Vestra að leiðarljósi'
'Ákvörðun sem þessi er tekin með góðri trú og hagsmuni Vestra að leiðarljósi'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Samúel Samúelsson.
Samúel Samúelsson.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
'Það var enginn leikmaður sem kom að þessari ákvörðun, eingöngu stjórn Vestra'
'Það var enginn leikmaður sem kom að þessari ákvörðun, eingöngu stjórn Vestra'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Okkur fannst hlutirnir frekar á leið niður á við en til batnaðar'
'Okkur fannst hlutirnir frekar á leið niður á við en til batnaðar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stýrði Vestra seinni part sumarsins 2021.
Stýrði Vestra seinni part sumarsins 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Við gerðum ráð fyrir gagntilboði sem kom ekki'
'Við gerðum ráð fyrir gagntilboði sem kom ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri tók þá ákvörðun á mánudag að gera þjálfarabreytingu, Davíð Smára Lamude var sagt upp og seint um kvöldið var samkomulag í höfn við Jón Þór Hauksson um að hann myndi stýra liðinu í síðustu þremur leikjunum.

Ákvörðunin kom á óvart þar sem Davíð Smári hafði gert frábæra hluti með Vestra. Hann fór með liðið upp úr Lengjudeildinni á fyrsta tímabili, hélt liðinu uppi í fyrra og gerði liðið að bikarmeisturum í ár. Gengi Vestra í deildinni hefur hins vegar ekki verið gott, enginn sigur unnist í um sjö vikur og liðið tapaði illa, 0-5, gegn ÍBV á heimavelli á sunnudag. Liðið er núna í 10. sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs Vestra, um ákvörðunina.

Hvers vegna vildi stjórn Vestra fara í breytingar á þessum tímapunkti?

„Ég held að allir þeir sem hafa horft á Vestraliðið í síðustu leikjum hafi skynjað það sama og við, mikið andleysi og úrræðaleysi og liðið ekki að sýna það sem einkenndi það Vestra lið sem við þekkjum. Okkur fannst hlutirnir frekar á leið niður á við en til batnaðar. Síðasti sigur í deildinni kom 10. ágúst, tvö stór töp gegn ÍA og ÍBV á heimavelli sem var erfitt að horfa framhjá. Það hefði verið mjög auðvelt að halla sér aftur og bíða og vona, en það var okkar mat að við yrðum að reyna að gera eitthvað til að snúa þessu við," segir Sammi.

Voru einhver merki frá leikmannahópnum um að þeir vildu fá annan þjálfara?

„Nei, það var enginn leikmaður sem kom að þessari ákvörðun, eingöngu stjórn Vestra."

Var erfitt að láta Davíð fara? Voru allir í stjórninni sammála þeirri ákvörðun?

„Já, við vorum sammála um það að það þyrfti að gera breytingar á þessum erfiða tímapunkti, annars hefði þetta ekki orðið niðurstaðan. Það var mjög erfið ákvörðun að láta hann fara, enda hefur hann gert frábærlega fyrir Vestra frá því að hann tók við félaginu fyrir þremur árum síðan og hans verður ávallt minnst fyrir þau verk. Hann gerði liðið að bikarmeisturum og kom því í Evrópukeppni. Davíð er góður og duglegur maður og frábær þjálfari sem gerði ákvörðun okkar enn erfiðari. Ákvörðun sem þessi er tekin með góðri trú og hagsmuni Vestra að leiðarljósi."

Heldur þú að það hefði gengið betur hjá Vestra ef það hefði náðst að framlengja samninginn við Davíð, að menn vissu þá hvað væri fyrir framan þá og leikmenn vissu betur sína framtíð?

„Það er erfitt að setja puttann á það, ég held að það sé bara mjög persónulegt hjá hverjum og einum. Lárus Orri, Heimir Guðjónsson og Hallgrímur Jónasson eru að verða samningslausir, ÍA, FH og KA eru með frammistöður „week in“ og „week out“. Birnir Snær er að verða samningslaus og hann er „on fire“. Mér allavega finnst það ódýr afsökun."

„Stærsta ástæðan í þessu er nú bara einfaldlega sú að við viljum geta staðið við allar okkar skuldbindingar og við viljum hafa hlutina fyrirsjáanlega. Þó svo að við höfum verið farnir að sjá hluti fyrir okkur þá er aldrei neitt í hendi. Það þarf tvo til að semja, það er ekki nóg að annar aðilinn vilji það."


Fannst þér þið gera nóg í viðræðunum við Davíð til að halda honum?
Samningur Davíðs Smára við Vestra hefði runnið út eftir tímabilið. Honum var boðinn nýr samningur í kringum bikarúrslitaleikinn en ekkert varð úr því að sá samningur var framlengdur. Slúðrað hefur verið um að Davíð hafi verið boðinn sami samningur og hann var með fyrir, sem er nokkuð óvænt miðað við hversu góðum árangri Davíð hefur náð.

„Við buðum honum sama samning og hann hefur verið á, sem hann hafnaði. Við gerðum ráð fyrir gagntilboði sem kom ekki. Þannig að það var klárlega ekki nóg."

„Sama þegar kemur að þjálfara og leikmönnum. Það er ekkert mál að lofa en við viljum geta staðið við það sem við semjum um. Það er nú einu sinni þannig að Vestra liðið er rekið frá ári til árs og við göngum ekki í neina sjóði ef allt fer á versta veg, þá erum við fimm félagar í stjórn sem berum ábyrgð á því. Við erum alls ekki góðir í öllu en við leggjum mikinn metnað í það að skulda ekki og greiða laun fyrsta hvers mánaðar. Ég held að þeir þjálfarar og leikmenn sem starfa fyrir Vestra geti kvittað upp á það."

„Svo má koma því á framfæri að ríkisstjórn Íslands er ekki að hjálpa rekstrarumhverfi Vestra, hvort sem það er meistaraflokkur eða yngri flokkar, né annarra íþróttafélaga sem treysta á blómlegan sjávarútveg með hækkun veiðigjalda. Það gerir okkur bara erfiðara fyrir og jafnvel minni fyrirsjáanleiki en við kjósum að hafa."


Þegar það kom ekkert gagntilboð, reynduð þið ekki að ræða aftur saman?

„Nei, við vorum sammála um að bíða með þetta þangað til eftir tímabilið, það var allavega minn skilningur."

Af hverju Jón Þór? Voru fleiri kostir skoðaðir?

„Við þekkjum Jón Þór vel og við vitum hvað við erum að fá, hann þekkir til deildarinnar, liðsins, mótherjanna og allra sem að liðinu koma. Við þurftum að fá inn mann með skömmum fyrirvara sem við höfum trú á að geti blásið nýju lífi í þessa frábæru leikmenn sem við höfum í Vestra. Nei, það voru ekki aðrir kostir skoðaðir á þessum tímapunkti," segir Sammi.

Framundan hjá Vestra eru útileikir gegn KA, Aftureldingu og svo heimaleikur gegn KR.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 24 9 6 9 30 - 29 +1 33
2.    KA 24 9 5 10 35 - 44 -9 32
3.    ÍA 24 9 1 14 33 - 45 -12 28
4.    Vestri 24 8 3 13 23 - 37 -14 27
5.    Afturelding 24 6 7 11 33 - 42 -9 25
6.    KR 24 6 6 12 46 - 58 -12 24
Athugasemdir
banner
banner