Englendingurinn Eric Dier bjargaði stigi fyrir Mónakó með marki úr vítaspyrnu á lokamínútunum í 2-2 jafnteflinu gegn Manchester City í Meistaradeildinni í gær.
Dier fékk vítaspyrnu undir lokin er Nico Gonzalez fór of hátt með löppina í átt að Englendingnum.
Vítaspyrna var dæmd eftir skoðun VAR og fór Dier sjálfur á punktinn og skoraði.
„Ég heyrði að Bernardo sagði að ég hafi dýft mér, en ég verð að horfa á þetta aftur. Þetta snerti klárlega andlitið á mér, en þetta fer eftir hæðinni á hausnum og hvað dómarinn ákveður. Það var samt klárlega snerting, en við erum bara ánægðir að fá markið og stigið í lokin,“ sagði Dier.
Hann hló þegar hann talaði um Bernardo sem hafði komið í viðtali stuttu áður og sagt Dier vera þekktan fyrir að dýfa sér, en þó allt í góðu gríni.
Mónakó sótti fyrsta stig sitt í Meistaradeildinni en Man City er með fjögur stig.
Athugasemdir