Manchester liðin og fleiri vilja Semenyo - Arsenal í viðræðum við Saka - Barcelona bíður með ákvörðun um Rashford
   þri 30. september 2025 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Arna Eiríks: Sé bara ein besta ákvörðun sem ég hef tekið
Kvenaboltinn
Arna Eiríksdóttir.
Arna Eiríksdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna er mætt í norska boltann.
Arna er mætt í norska boltann.
Mynd: Vålerenga
Í leik með FH í sumar.
Í leik með FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sædís Rún Heiðarsdóttir er leikmaður Vålerenga.
Sædís Rún Heiðarsdóttir er leikmaður Vålerenga.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Arna á að baki tvo A-landsleiki.
Arna á að baki tvo A-landsleiki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Arna með skalla að marki.
Arna með skalla að marki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fagnar sigri með FH.
Fagnar sigri með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Lífið hérna er mjög gott og spennandi," segir miðvörðurinn Arna Eiríksdóttir sem skipti á dögunum frá FH til norska meistaraliðsins Vålerenga.

Arna er uppalin í Víkingi og Val en fór í FH sumarið 2023 og tók þar mjög jákvæð skref. Hún var stórkostleg með FH-ingum í sumar áður en hún fór til Noregs.

„Fyrstu dagarnir hafa verið mjög skemmtilegir, það er mikið sem ég þarf að aðlagast og mikið af nýjum hlutum," segir Arna í samtali við Fótbolta.net.

Mjög viss um mína ákvörðun
Skiptin yfir til Vålerenga áttu sér ekki langan aðdraganda.

„Þetta var fljótt að gerast, bara á nokkrum dögum. Ég var bara farin út nokkrum dögum eftir að ég heyrði í þeim fyrst. Ég hafði lítinn tíma til að ákveða mig en ég var mjög viss um mína ákvörðun," segir Arna.

„Ég er þannig týpa að ég er ekkert mikið að stressa mig yfirleitt á hlutunum. Það var auðveld ákvörðun fyrir mig að hoppa á þetta."

Var mikill áhugi erlendis frá?

„Ég var búin að eiga einhver samtöl en þetta var það fyrsta sem greip hugann almennilega og eitthvað sem mig langaði virkilega að stökkva á. Þetta er bara toppklúbbur í Skandinavíu og það eru ótrúlega mikil gæði hérna. Þetta er félag sem er að berjast á toppnum á hverju einasta ári. Það heillar líka mikið að taka þátt í Meistaradeildinni. Þetta er staður þar sem ég get haldið áfram að þróa minn leik og get bætt mig sem leikmaður."

„Þau náðu að selja mér þetta bara í fyrsta samtalinu. Þetta er stórt félag og stórt skref upp á við. Þetta er klárlega eitthvað sem mun henta mér vel og gera mig að betri leikmanni."

Með góða reynslu af Íslendingum
Kvennalið Vålerenga hefur góða reynslu af íslenskum leikmönnum. Ingibjörg Sigurðardóttir var frábær fyrir liðið á sínum tíma og Sædís Rún Heiðarsdóttir hefur leikið fyrir félagið síðustu árin.

Arna segir það hjálpa sér mikið að aðlgast að hafa Sædísi hjá félaginu.

„Ég heyrði í Sædísi og lét hana vita að ég væri á leiðinni. Auðvitað hjálpar að það hafi verið Íslendingar hérna og það er gott að maður getur séð þróunina á leikmönnunum sem hafa verið hjá félaginu. Íslendingunum hefur liðið vel hérna og hafa gert góða hluti," segir Arna.

„Það fer allt fram á norsku hérna þannig að það er mjög gott að hafa Sædísi upp á það að gera. Svo er líka gott að hafa kunnulegt andlit og einhvern sem hjálpar manni að komast inn í allt. Ég er ekki alveg byrjuð að læra norskuna en ég skil eitthvað af því sem stelpurnar reyna að segja við mig. Það kemur vonandi bráðum," segir Arna sem er að koma sér inn í hlutina hjá Vålerenga.

Algjör forréttindi
Er það súrrealískt að vera upplifa drauminn að spila í atvinnumennsku?

„Ég veit það ekki, ég er ekki búin að fá neitt svona 'vá!' augnablik," segir Arna og hlær. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt og ég er að upplifa drauminn; þetta eru algjör forréttindi, að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegast."

Skrefið upp á við er mikið, að fara í eitt besta lið Skandinavíu.

„Ég get alveg sagt það, já. Það er rosalega mikill hraði á æfingum og mikil gæði. Við erum með stóran hóp en hann er samt sem áður mjög jafn. Það eru gæði í hverjum einasta leikmanni og það eru gerðar miklar kröfur."

„Kerfið sem við erum að spila er ekki endilega svakalega ósvipað og hjá FH. Þetta er þriggja manna varnarlína og mikill pressubolti. Að einhverju leyti er þetta aðeins taktískari bolti sem ég þarf að venjast aðeins. Einhver áherslumunur og svona. Ég held að það hjálpi mér klárlega að hafa spilað í þriggja manna vörn hjá FH, það er góður undirbúningur fyrir þetta," segir Arna.

Mjög erfitt að kveðja FH
Það var mjög erfitt að kveðja FH eftir góð ár þar. Arna er í miklum metum hjá Fimleikafélaginu en hún var orðin fyrirliði liðsins eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá Val.

„Það var erfitt bara, mjög erfitt. Mér þykir ótrúlega vænt um þetta fólk. Þetta eru bestu vinkonur mínar. Það var ótrúlega erfitt að kveðja þær og starfsliðið líka í Kaplakrika. Þjálfararnir hafa gert ótrúlega mikið fyrir mig. Það var ótrúlega erfitt að kveðja," segir Arna.

Að fara í FH var ótrúlega góð ákvörðun fyrir hana.

„Ég held að það sé bara ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Mér leið eins og ég væri komin heim frá því ég kom þarna í fyrsta skiptið. Mér var tekið með opnum örmum og ég náði að mynda ótrúlega dýrmæt tengsl við fólk. Það er mikilvægt í fótbolta að finna stað þar sem manni líður vel. Ég held að það sé erfitt að spila vel þegar þér líður ekki vel. Ég er ótrúlega sátt með að hafa farið í FH," segir miðvörðurinn sem fylgist vel með sínum gömlu liðsfélögum.

„Ég er búin að vera öskrandi á tölvuna síðustu leiki. Það er gaman að fylgjast með þeim og skemmtilegt að sjá ungar FH stelpur að fá stærra hlutverk eftir að við Elísa (Lana Sigurjónsdóttir) fórum út. Það er bara frábært. Ég er spennt að fylgjast með þeim í þessum síðustu leikjum tímabilsins."

Arna segist vera orðinn mikill FH-ingur í dag.

„Ég er mikill FH-ingur núna. Það var smá skrítið, þegar ég er farin úr FH, að horfa á FH - Val með tvær systur mínar í Val en ég get alveg viðurkennt það að ég hélt með FH."

Verða vonandi möguleikarnir meiri
Næstu vikur eru spennandi en Arna vonast til þess að möguleikarnir verði meiri núna á því að komast í landsliðshópinn.

„Það er spilað mjög þétt hérna og svo er þessi Meistaradeild að fara af stað. Það verður mikil keyrsla," segir Arna og bætir við að lokum:

„Ég horfi á þetta skref til að bæta mig sem leikmaður. Því betri sem ég verð þá verða vonandi möguleikar mínir í landsliðinu meiri. Ég horfi klárlega á þetta þannig."
Athugasemdir
banner