

'Það er svolítið öðruvísi að mæta fyrir framan 150 manns eða allt í einu 1500-1600 manns og svo næstum 3000 manns á Laugardalsvelli'
Tímabilið hjá Keflavík var skrítið, liðinu var spáð velgengni í Lengjudeildinni, en liðinu tókst ekki að finna almennilegan takt fyrr en kannski alveg í restina. Það dugði til, liðið rétt slefaði inn í umspilið og vann það að lokum og verður í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Fótbolti.net ræddi við Harald Frey Guðmundsson, þjálfara Keflavíkur, um tímabilið.
Fótbolti.net ræddi við Harald Frey Guðmundsson, þjálfara Keflavíkur, um tímabilið.
Það var bras á ykkur komandi inn í seinni hlutann, lokakaflann, þetta leit ekki vel út, óttaðistu einhvern tímann um starfið þitt?
„Nei, í raun og veru ekki. Við vorum í smá brasi í deildinni, alltaf þegar við áttum möguleikann á því að gera eitthvað þá klikkuðum við og við komumst bara inn í umspilið í síðustu umferðinni. Mér fannst við samt hafa einhvern veginn trú á því að við myndum ná þar inn. Ég viðurkenni að þetta leit ekki vel út, vorum sex stigum á eftir ÍR eftir að hafa tapað gegn þeim og bara tveir leikir eftir, þá var þetta orðið ansi langsótt," segir Halli.
„Það samt kannski breytist strax á einum leik, við allt í einu vinnum Njarðvík á Ljósanótt og ÍR tapar gegn Grindavík. Þá fannst mér líklegra að við myndum fara í umspilið heldur en þeir, við áttum Selfoss en þeir Fylki í lokaleiknum."
Öðruvísi að spila þegar fleiri mæta og meira er undir
Á móti Njarðvík í 21. umferð, hugsuðuð þið að þetta væri ykkar allra síðasta séns?
„Frá því að við lendum með bakið alveg upp við vegg þá höfum við verið mjög góðir. Gegn Njarðvík í deildinni, Selfossi úti, Njarðvíkureinvígið og lokaleikurinn á Laugardalsvelli. Þegar allt var undir þá vorum við góðir."
„Það er líka þannig að það er svolítið öðruvísi að mæta fyrir framan 150 manns eða allt í einu 1500-1600 manns og svo næstum 3000 manns á Laugardalsvelli. Það setur allt í annað samhengi. Menn fundu að það var mikið undir og ég held að það hafi kveikt í mönnum."
Fögnuður Njarðvíkinga kveikti í Keflvíkingum
Í fyrri leik Keflavíkur og Njarðvíkur í umspilinu ákváðu Njarðvíkingar að Oumar Diouck fengi annað gult spjald undir lok leiks. Hann yrði því í banni í seinni leiknum, en gæti spilað úrslitaleikinn í umspilinu ef Njarðvík kæmist þangað. Ef Diouck hefði ekki fengið seinna gula spjaldið hefði hann misst af mögulegum úrslitaleik. Njarðvík vann fyrri leikinn 2-1.
Kveikti sú ákvörðun í ykkur?
„Það er ekkert hægt að neita því að það kveikir aðeins í mannskapnum, hann fer viljandi í bann og þeir aðeins komnir fram úr sér fannst mér. En ég held að það hafi frekar verið fögnuðurinn hjá þeim inni í klefa. Ég held að það hafi kveikt vel í mönnum, mönnum fannst einhverjir af þeim fara aðeins yfir strikið, því á endanum var bara hálfleikur. Ég held það hafi gert meira en rauða spjaldið," segir Halli en Keflavík vann 3-0 í Njarðvík og vann svo 4-0 gegn HK í úrslitaleiknum.
Athugasemdir