Man Utd hefur áhuga á Valverde - Guehi gæti farið til Tottenham - Frank hefur líka áhuga á Collins
   mið 01. október 2025 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Segir að fíaskóið hjá Val hafi kveikt í systur sinni - „Gríðarlega stoltur af henni"
Kvenaboltinn
Markahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks og verður nánast örugglega markadrotnning deildarinnar í ár.
Markahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks og verður nánast örugglega markadrotnning deildarinnar í ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er bara 100% að meðferðin sem hún fékk undir lokin hjá Val kveikti í henni'
'Það er bara 100% að meðferðin sem hún fékk undir lokin hjá Val kveikti í henni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég sá það í augunum á henni að hún ætlaði sér svo sannarlega að sýna fyrir öllum hvað hún gæti'
'Ég sá það í augunum á henni að hún ætlaði sér svo sannarlega að sýna fyrir öllum hvað hún gæti'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég held að hún hefði klárlega getað hjálpað'
'Ég held að hún hefði klárlega getað hjálpað'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg Þorvaldsdóttir varð á dögunum markahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks. Hún er uppalin hjá Breiðabliki og sneri aftur til félagsins síðasta vetur eftir fjögurra tímabila fjarveru.

Berglind er langmarkahæst í Bestu deildinni með 22 mörk skoruð í 19 leikjum spiluðum. Hún skoraði tvennu gegn Þrótti í gær.

Fótbolti.net ræddi við Gunnar Heiðar Þorvaldsson í vikunni og var hann spurður út í systur sína.

„Ég hefði getað sagt þér það snemma á árinu þegar ég spjallaði við hana að hún ætti eftir að eiga frábært tímabil. Þá var allt þetta fíaskó í kringum Val og stjórnina kvennamegin gagnvart henni. Ég sá það í augunum á henni að hún ætlaði sér svo sannarlega að sýna fyrir öllum hvað hún gæti, ætlaði sér að sýna að það væri hægt að koma til baka eftir barnsburð og sýna að hún hafi helling upp á að bjóða," segir Gunnar Heiðar.

„Sú er búin að skila því! Hún er komin heim aftur í Breiðablik, í flott lið með ungum og sprækum stelpum í bland við eldri og rútíneraðri, og með flottan þjálfara í Nik (Chamberlain). Það er frábær umgjörð kvennamegin í Breiðabliki. Hún fékk þau tól sem hún þurfti, ég veit að hún ætlaði að gera vel, ég held að þetta tímabil sé meira að segja fram úr hennar björtustu vonum."

„Það er bara 100% að meðferðin sem hún fékk undir lokin hjá Val kveikti í henni. Það var bensínið á bálið hennar. Hún ætlaði að sýna öllum sem efuðust að hún gæti verið nógu góð og markadrottning í þessari deild. Hún hefur gert það vel."

„Ég er gríðarlega stoltur af henni, hún hefur fylgt mér í gegnum minn feril og öfugt, höfum verið í þessu saman. Þetta er ekkert eðlilega stórt hjá henni, fær tækifæri á að sýna á sínum forsendum hversu góð hún er. Ég held að hún muni alltaf hugsa hlýtt til Breiðabliks að hafa fengið hana til baka og hjálpað henni að komast á þennan stað."


Þú ert ekki alveg hlutlaus, en fannst þér skrítið að hún var ekki valin í landsliðið sem fór á EM?

„Mér finnst það út frá því hvernig við vorum að spila og hvernig sóknarlínan okkar var. Þá held ég að það hefði verið gott að vera með inn leikmann eins og Berglindi til að vera möguleiki í leikina þar sem við þurftum að sækja mark eða halda betur í boltann uppi á topp - sem hún er góð í."

„Ég er sannfærður um að hún hefði getað komið inn, þó það hefði ekki verið í nema einn leik, kannski svipað og Eiður Smári í restina á hans landsliðsferli. Það eru svo margir hlutir sem skipta máli, tímapunktar hér og þar, leikir spilast á alls konar vegu, og reynslan er ekkert keypt í þessu."

„Yngri leikmenn myndu sjá að þarna væri á ferðinni leikmaður sem væri hokin af reynslu ekkert að blikna yfir því að fara í stórleik, það hefði getað hjálpað þeim yngri að mæta þægilegri inn í leikinn."

„Ég held að hún hefði klárlega getað hjálpað,"
segir Gunnar Heiðar.
Athugasemdir
banner
banner