Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mán 10. nóvember 2014 16:38
Elvar Geir Magnússon
Hólmar Örn ætlar að banka fastar á landsliðsdyrnar
Icelandair
Hólmar Örn hefur verið að gera frábæra hluti með Rosenborg í Noregi.
Hólmar Örn hefur verið að gera frábæra hluti með Rosenborg í Noregi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmar á einn A-landsleik að baki en hann spilaði vináttuleik gegn Svíþjóð 2012.
Hólmar á einn A-landsleik að baki en hann spilaði vináttuleik gegn Svíþjóð 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Strákarnir eru sprækir og þetta lítur allt vel út," segir Hólmar Örn Eyjólfsson sem í gær var kallaður inn í landsliðshópinn. Hólmar kemur í stað Kára Árnasonar sem tekur ekki þátt í Belgaleiknum vegna meiðsla.

„Ég er fyrst og fremst kominn til að spila Belgaleikinn en svo sjáum við til hvað verður varðandi Tékkaleikinn. Belgar eru með mjög sterkt lið og gaman að spreyta sig á móti þeim."

Hólmar er ákveðinn í að gera enn meira tilkall til þess að vera í landsliðshópnum hjá Heimi Hallgrímssyni og Lars Lagerback.

„Það er gott að vita að þeir eru að fylgjast með manni. Maður reynir bara að gera eins vel og maður getur og banka enn fastar á dyrnar. Maður vonast eftir því að fá tækifæri til að sýna sig og sanna gegn Belgum og gera frekari atlögu að hópnum," segir Hólmar en hópurinn hittist í Belgíu í dag.

Hefur verið ævintýri líkast
Hólmar hefur verið að gera frábæra hluti með Rosenborg í Noregi. Hann og norski landsliðsmaðurinn Tore Reginiussen hafa náð afar vel saman í hjarta varnarinnar.

„Hann er mjög öflugur varnarmaður sem kemur boltanum vel frá sér. Við erum að ná vel saman og skiljum hvorn annan ágætlega," segir Hólmar um Reginiussen en félagaskipti Íslendingsins til norska stórliðsins hafa reynst gæfuskref.

„Þetta hefur verið ævintýri líkast. Liðið hefur unnið 9 af 10 leikjum síðan ég kom. Við höfum verið að klifra upp töfluna og það er gaman að vera í sigurliði sem fer í alla leiki til að vinna. Við erum hrikalega öflugir sóknarlega og gaman að vera partur af þessu."

„Það hefur nánast komið mér á óvart hversu stór klúbburinn er. Öll umgjörðin er frábær og manni líður eins og maður sé í stórliði. Það er ekki mikill munur á þessu og því sem ég kynntist í Þýskalandi."
Athugasemdir
banner
banner
banner