Man Utd vill bakvörð Barcelona - Newcastle reynir við kantmann Malaga - Man Utd og Chelsea hafa áhuga á Delap
banner
   þri 11. febrúar 2025 10:08
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þorri yfirgefur Öster og er á leið í Bestu
Mynd: Öster
Bakvörðurinn Þorri Mar Þórisson er að yfirgefa sænska félagið Öster og er að öllum líkindum á leið í Bestu deildina. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er hann einnig með kosti erlendis en líklegra þykir að hann komi til Íslands.

Það var Smålandsposten sem greindi fyrst frá því í gær að Þorri væri að yfirgefa Öster og væri a leið til Íslands.

Þorri, sem getur leyst báða bakvarðastöðurnar, samdi við Öster í ágúst 2023 og er samningsbundinn félaginu út 2026. Hann er 25 ára og hefur mikið glímt við meiðsli á tíma sínum í Svíþjóð. Á rúmum tveimur tímabilum hefur Þorri spilað 22 deildarleiki og skoraði í þeim eitt mark og lagði upp tvö, og spilaði einnig tvo bikarleiki.

Öster fór upp úr sænsku B-deildinni á síðasta tímabili og verður í Allsvenskan á næsta tímabili. Þorri kom við sögu í ellefu leikjum um miðbik móts en spilaði ekki í 13 síðustu leikjum liðsins.

Það er spurning hvert næsta skref Þorra verður. Mun hann endurnýja kynnin við Srdjan Tufegdzic, Túfa, sem fékk hann til Öster á sínum tíma? Túfa er þjálfari Vals sem reyndi að fá Þorra í sínar raðir á sínum tíma. Þá hefur einnig spurst út að Stjarnan sé að skoða möguleika í varnarlínuna og gæti félagið reynt að fá Þorra í sínar raðir.

Hann er Dalvíkingur sem hóf meistaraflokksferilinn með Dalvík/Reyni en lék svo með KA þar til hann fór út ef frá er talin lánsdvöl hjá Keflavík. Hann skoraði þrjú mörk í 66 deildarleikjum með KA á árunum 2019-2023, en hann var í stóru hlutverki síðustu þrjú tímabilin.
Athugasemdir
banner
banner