Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 11. júlí 2023 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Möltu
„Það væru mikil vonbrigði fyrir Shamrock Rovers"
Breiðablik spilar við Shamrock Rovers í fyrri leik liðanna í kvöld.
Breiðablik spilar við Shamrock Rovers í fyrri leik liðanna í kvöld.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jack Byrne á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Írland.
Jack Byrne á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Írland.
Mynd: Getty Images
Shamrock Rovers er á toppi írsku úrvalsdeildarinnar þó að liðið hafi ekki verið að spila sérlega vel.
Shamrock Rovers er á toppi írsku úrvalsdeildarinnar þó að liðið hafi ekki verið að spila sérlega vel.
Mynd: Getty Images
Breiðablik er í þriðja sæti Bestu deildarinnar.
Breiðablik er í þriðja sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Breiðablik leikur í kvöld fyrri leik sinn gegn írsku meisturunum í Shamrock Rovers í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leikurinn fer fram á Írlandi en seinni leikurinn verður svo spilaður á Kópavogsvelli.

Við ræddum við Andrew Dempsey, sem er írskur fótboltasérfræðingur, um einvígið sem er framundan hjá Blikum. Shamrock Rovers er sigursælasta félagið á Írlandi en liðið komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.

„Þegar það var dregið þá var tilfinningin sú að Shamrock Rovers hafi sloppið vel, þeir forðuðust til dæmis Häcken frá Svíþjóð," segir Dempsey. „En eftir frammistöðu Breiðabliks í umspilinu fyrir forkeppnina er óttast að Rovers gæti lent í vandræðum, sérstaklega í ljósi þess að liðið hefur verið upp og niður í deildinni heima fyrir. Þeir eru á toppnum en hafa ekki heillað með frammistöðu sinni."

Breiðablik hefur einnig ekki heillað sérstaklega með frammistöðu sinni í deildinni í sumar, en liðið er sem stendur í þriðja sæti með 27 stig eftir 14 leiki spilaða. Breiðablik spilaði hins vegar frábærlega í umspili fyrir forkeppnina og valtaði þar yfir Buducnost frá Svartfjallalandi.

„Það væru mikil vonbrigði fyrir Shamrock Rovers ef þeir komast ekki lengra en í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar," segir Dempsey.

Upp og niður
Shamrock Rovers er félag sem hefur gengið í gegnum mikinn öldudal síðastliðin ár, en hefur fundið leiðina aftur á toppinn á írskum fótbolta.

„Shamrock Rovers er félag sem var stofnað árið 1899 og er það félagið sem hefur unnið írsku deildina oftast, eða 25 sinnum. Félagið vann fjóra deildartitla í röð frá 1984 til 1987 en lenti svo í ákveðnum vandræðum eftir það. Eigendur félagsins seldu heimavöllinn og félagið þurfti að bíða í næstum því 20 ár eftir nýjum leikvangi, sem er núna Tallaght Stadium," segir Dempsey.

„Á meðan félagið var heimilislaust þá féll það niður í B-deildina en það komst strax aftur upp. Eftir að félagið flutti á Tallaght þá vann það deildina tvisvar í röð og komst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Félagið lenti svo aftur í smá lægð og þurfti að bíða til 2020 til að vinna sinn næsta deildartitil, á meðan Dundalk var besta liðið í írskum fótbolta. Félagið stefnir núna á að vinna sinn fjórða deildartitil í röð eftir að hafa komist í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á síðustu leiktíð."

Eftir að Stephen Bradley tók við stjórn liðsins árið 2016 þá hefur Shamrock Rovers verið á mikilli uppleið.

Stærsti prófíllinn tæpur fyrir leikinn
Dempsey nefnir þrjá leikmenn sem eru mikilvægastir fyrir Shamrock Rovers akkúrat núna.

„Alan Mannus er mjög reyndur markvörður sem spilar mikilvægt hlutverk fyrir liðið. Jack Byrne er stærsta nafnið í liðinu; hann er írskur landsliðsmaður sem hefur spilað fyrir Manchester City, Cambuur og APOEL Nicosia. Hann elskar að spila stóra leiki og gerir yfirleitt alltaf vel í Evrópu. Svo er það Neil Farrugia sem er fyrrum kantmaður og núna vængbakvörður. Hann er traustur varnarlega og enn betri sóknarlega. Það er líklegt að hann fari eftir tímabilið þar sem ensk félög hafa áhuga á honum," segir Dempsey.

Það eru góðar fréttir fyrir Blika að Mannus hefur verið að glíma við meiðsli og það er ólíklegt að hann verði með í leiknum í kvöld. Byrne hefur líka verið að glíma við meiðsli en það er búist við því að hann verði með.

Eiga að stefna á að gera betur en síðast
Dempsey segir að Shamrock Rovers eigi að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar að minnsta kosti. „Það er ekki auðvelt en þeir eiga samt að stefna á að gera betur en á síðasta þegar þeir komust í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar."

Írski fjölmiðlamaðurinn býst við áhugaverðum leik í kvöld. „Rovers vilja spila aðlaðandi og áhættusækinn fótbolta og það verður áhugavert að sjá hvað gerist þegar þeir mæta liði með svipaðan leikstíl. Það er alltaf erfitt að spá í svona leiki en ég held að Rovers muni taka með sér eins marks forystu í seinni leikinn á Íslandi," sagði Dempsey að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner