Þróttur verður án fyrirliða síns, Álfhildar Rósu Kjartansdóttur, næstu vikurnar.
Álfhildur fór meidd af velli gegn Selfossi og þurfti hún að yfirgefa leikvanginn í sjúkrabíl. Hún meiddist á öxl og virkaði sárþjáð er hún yfirgaf Laugardalinn.
Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, segir í samtali við Fótbolta.net að sem betur fer sé ekkert brotið en meiðslin séu af öðrum toga. Álfhildur þarf að hitta sérfræðing, en það er búist við því að hún verði frá í nokkurn tíma.
Nik talaði um það eftir leik að hann hefði verið ósáttur með línu dómarans í leiknum, hann leyfði leikmönnum að komast upp með mikið og því hafi harkan í leiknum verið mjög mikil.
„Ég er ekki ánægður með dómgæsluna aftur. Ég skil ekki hvernig það var bara eitt gult spjald í leiknum. Það var engin lína," sagði Nik eftir leikinn.
Það er vonandi að Álfhildur jafni sig fljótt og vel, en þetta er svekkjandi niðurstaða fyrir Þróttara sem leyfa sér enn að dreyma um að ná öðru sæti deildarinnar - Meistaradeildarsæti.
Athugasemdir