Anderson til United? - Arsenal í viðræðum við lykilmenn - Tveir á förum frá United - 18 ára vekur athygli
   fim 11. september 2025 10:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það sem við Íslendingar þurfum að passa okkur á"
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það sem við Íslendingar þurfum að passa okkur á er að við erum komin alltof mikið í tæknilega þátt leiksins og erum farnir að gleyma líkamlega þætti leiksins," sagði Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands, í hlaðvarpinu Chess After Dark á dögunum.

Arnar segir að við Íslendingar munum lenda eftir á í fótboltanum ef við förum ekki að huga betur að líkamlega þættinum.

„Það sem er að gerast núna út í heimi er að þeir eru farnir að æfa miklu meira þrekþáttinn hjá sér frá tólf ára aldri en nokkurn tímann áður. Þeir eru farnir að ráða sérfræðinga í þessum þáttum; lyftingar, mælingar og allur pakkinn. Þess vegna erum við að fá meira núna en oft áður 15-16 ára gutta sem eru líkamlega tilbúnir til að spila í ensku úrvalsdeildinni eða þeirri spænsku. Þeir eru byrjaðir að lyfta tólf ára gamlir."

„Við þurfum að fara miklu meira í þetta til að fylgja þessari þróun eftir. Hvert einasta lið sem við mætum, hvort sem það er Kosóvó, Aserbaídsjan eða Skotland þá fylla allir miklu betur út í búningana en við gerum. Ég sé það líka í Evrópuleikjum, Breiðablik er að mæta liðum þar sem þeir eru miklu betri í fótbolta en líkamsholningin hjá andstæðingnum er öðruvísi."

„Ég er ekki að tala um að við þurfum að vera með stráka sem taka 120 kíló í bekkpressu. Ég tek sem dæmi nýjasta ungstirnið hjá Arsenal, Max Dowman. Hann er grannur en hann er sterkur líkamlega. Við þurfum að fá þessa gaura. Ég veit að út af smæð þjóðarinnar þá erum við ekki að ná 100 leikmönnum sem fylla í þessa kategóríu en pælingarnar eru að byrja miklu yngri í þrekþjálfun og eyða pening í það; stundum að sleppa því að kaupa þennan leikmann í meistaraflokkinn og borga alvöru sjúkraþjálfara sem er bara að sjá um 4. og 5. flokk karla til dæmis. Þannig verður framhaldið í okkar þróun í fótboltaheiminum, ekki bara að fara inn í Fífuna og gera tækniæfingar," segir landsliðsþjálfarinn.

Arnar segist hafa mjög sterkar skoðanir hvað þetta varðar.

„Ég hef mjög sterkar skoðanir á þessu. Ég er búinn að sjá þetta úti hjá Real Sociedad og lesa mér til um það hvað er að gerast hjá þessum félögum erlendis. Þetta er þróunin sem við verðum að fara í," segir Arnar. „Ef við sitjum eftir í þessu, þá munum við sitja eftir - það er ekki flóknara en það."


Athugasemdir