Davíð Smári Lamude samdi við Njarðvík snemma í nóvember og í kjölfarið kom Eiður Aron Sigurbjörnsson til félagsins.
Á föstudag var miðvörðurinn Felix Mathaus Lima Santos kynntur sem nýr leikmaður Njarðvíkur. Felix er 35 ára og hefur tvívegis verið valinn í landsliðshóp Grænhöfðaeyja á ferlinum, en kom þó ekki við sögu.
Það er þokkaleg tilviljun að hann sé orðinn leikmaður Njarðvíkur. Fótbolti.net ræddi við Rafn Markús Vilbergsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá Njarðvík.
Það er þokkaleg tilviljun að hann sé orðinn leikmaður Njarðvíkur. Fótbolti.net ræddi við Rafn Markús Vilbergsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá Njarðvík.
Hvernig kom til að Felix Mathaus samdi við Njarðvík?
„Felix kom til landsins í lok september og mætti þá óvænt í framhaldi á skrifstofu Hjalta Más Brynjarssonar, formanns knattspyrnudeildar Njarðvíkur og eiganda Grjótgarða, verktakafyrirtækis í Reykjanesbæ, í leit að vinnu. Felix afhenti Hjalta ferilskrá sína og þar kom í ljós að hann hafði verið atvinnumaður í knattspyrnu alla sína tíð," segir Rafn Markús.
„Í kjölfarið spjölluðu þeir saman um fótbolta og Njarðvík og hafði Hjalti samband við mig í framhaldinu. Felix mætti síðan á fyrstu æfinguna hjá Davíð Smára eftir að hann tók við liðinu. Á þeim tímapunkti var ákveðið að gefa honum séns, leyfa honum að æfa með liðinu og spila í æfingaleikjum, áður en einhver ákvörðun yrði tekin. Hann átti góða leiki varnarlega gegn Fylki, KR og FH og skoraði að auki þrjú mörk eftir föst leikatriði. Í framhaldinu var ákveðið að ganga til samninga við hann þar sem þetta er flottur leikmaður, með mikla reynslu og mikill karakter, sem vonandi á eftir að reynast okkur vel. "
Hann hefur spilað í Portúgal, Rúmeníu og Grikklandi á ferlinum. Hvernig er formið?
„Felix lék síðast í maí 2025 með Niki Volou í úrslitakeppni grísku B-deildarinnar. Þar á undan hafði hann leikið í efstu deild í Rúmeníu auk portúgölsku B-deildarinnar. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað keppnisleik síðan í vor er hann í ágætis standi og spilaði meðal annars allar mínúturnar gegn Keflavík um helgina."
Í desember fjallaði Fótbolti.net um úrslit úr æfingaleikjum hjá Njarðvík og Felix skoraði í tveimur þeirra. Upplýsingarnar sem Fótbolti.net fékk var að Felix Hjaltason hefði skorað. Af hverju var ákveðið að kalla hann Felix Hjaltason?
„Hann var skráður markaskorari hjá Njarðvík á fótbolti.net í leikjunum gegn KR og FH. Þetta var létt grín innan félagsins, þegar rætt var um Felix innan félagsins var hann kallaður „Felix Hjalta“, með vísan í hvernig hann kom fyrst til félagsins í gegnum heimsókn á skrifstofuna hjá Hjalta Má. Þetta nafn rataði síðan inn hjá .net."
Nú eruð þið með Sigurjón Má, Arnar Helga, Eið Aron og Felix sem hafsenta. Er Felix fenginn sem byrjunarliðsmaður og jafnvel sem möguleiki til að spila þriggja manna vörn?
„Felix gefur okkur klárlega aukna vídd og möguleika fyrir þjálfarateymið að spila mismunandi skipulag og með mismunandi samsetningar."
Ein spurning að lokum. Njarðvíkingar hafa verið orðaðir við markmenn en enginn hefur verið tilkynntur í vetur og Aron Snær Friðriksson fór í Víking. Hvernig standa þau mál hjá ykkur?
„Það er rétt, við höfum verið að skoða í kringum okkur og kanna hvað er í boði. Við vorum með markmann frá Portúgal á reynslu um daginn sem spilaði í tveimur æfingaleikjum. Þá hafa Andrés (Már Kjartansson) og Daði (Fannar Reinhardsson) einnig verið í markinu undanfarið en Daði átti meðal annars góðan leik gegn Keflavík um helgina," segir Rafn Markús.
Njarðvík endaði í 2. sæti Lengjudeildarinnar síðasta sumar en náði ekki að komast upp í Bestu deildina. Ákveðið var að skipta um þjálfara og var Davíð Smári Lamude ráðinn í nóvember. Markmið Njarðvíkur er að fara upp úr Lengjudeildinni næsta sumar.
Athugasemdir



