Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   mið 12. júní 2024 12:56
Elvar Geir Magnússon
Svona myndi Rooney stilla enska landsliðinu upp
Wayne Rooney á leik Englands og Íslands.
Wayne Rooney á leik Englands og Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anthony Gordon.
Anthony Gordon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Wayne Rooney var beðinn um að stilla upp sínu byrjunarliði ef hann væri landsliðsþjálfari Englands. Á sunnudag hefur enska landsliðið keppni á EM þegar það mætir Serbíu.

Rooney valdi Marc Guehi, varnarmann Crystal Palace, við hlið John Stones í vörnina en segist sjálfur hissa á því að Jarrad Branthwaite, varnarmaður Everton, hafi ekki verið valinn í hópinn.

„Hann er virkilega góður með boltann, var lánaður til Hollands áður en hann kom aftur til Everton. Hann er ákafur, stór og stæðilegur. Ég skil ekki af hverju hann var ekki valinn fyrst Harry Maguire er ekki með," segir Rooney.

Luke Shaw verður ekki klár í fyrsta leik svo Kieran Tripper spilar vinstri bakvörðinn.

„Það er klárt að Trippier byrjar en hann hefur verið slakur. Hann hefur ekki spilað vel fyrir Newcastle og var slakur líka gegn Íslandi."

Rooney velur Phil Foden sem fremstan á miðjunni með Declan Rice og Jude Bellingham fyrir aftan. Margir sparkspekingar reikna þó með því að Foden verði notaður vinstra megin. Þar vill Rooney hinsvegar sjá Anthony Gordon leikmann Newcastle.

„Hann er öðruvísi, hann býr til breidd sem skapar meira pláss fyrir aðra leikmenn og er sífellt hlaupandi," segir Rooney.

Eins og áður segir leikur England gegn Serbíu á sunnudag. Síðan leikur liðið gegn Danmörku þann 20. júní og leikur sinn síðasta leik í riðlinum gegn Slóveníu þann 25. júní.

Byrjunarlið Englands (valið af Wayne Rooney): Jordan Pickford (m); Kyle Walker, John Stones, Marc Guehi, Kieran Trippier; Declan Rice, Jude Bellingham, Phil Foden; Bukayo Saka, Anthony Gordon, Harry Kane.


Athugasemdir
banner
banner
banner