Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 12. júlí 2024 18:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ísland á fimmta Evrópumótið í röð með sögulegum sigri (Staðfest)
Icelandair
Geggjaður sigur!
Geggjaður sigur!
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fyrsta landsliðsmark Ingibjargar.
Fyrsta landsliðsmark Ingibjargar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 3 - 0 Þýskaland
1-0 Ingibjörg Sigurðardóttir ('13)
2-0 Alexandra Jóhannsdóttir ('52)
3-0 Sveindís Jane Jónsdóttir ('83)
Lestu um leikinn

Lestu um leikinn: Ísland 3 -  0 Þýskaland

Íslenska kvennalandsliðið er komið á fimmta Evrópumótið í röð! Það varð ljóst með sögulegum sigri á Þýskalandi á Laugardalsvelli í kvöld.

Sigurinn er sögulegur fyrir þær sakir að aldrei áður hefur Ísland sigrað Þýskaland á heimavelli og hafði fyrir leikinn í kvöld heldur aldrei skorað mark gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli. Frábær mæting var á Laugardalsvöll og var stuðningurinn til algjörar fyrirmyndar, það hefur eflaust hjálpað liðinu að ná sínu besta fram.

Það var viðeigandi að Ingibjörg Sigurðardóttir opnaði markareikning sinn fyrir landsliðið í kvöld, skoraði eftir hornspyrnu Karólínar Leu Vilhjálmsdóttur. Sveindís Jane Jónsdóttir vann fyrsta bolta og Ingibjörg kom svo boltanum í netið. Ingibjörg var að spila sinn 64. landsleik og kom inn í leikinn eftir erfitt hálft ár í Þýskalandi þar sem gekk lítið með félagsliði hennar Duisburg.

Staðan var 1-0 í leikhléi en íslenska liðið hafði heppnina með sér þegar ragnstaða var dæmd á þýska liðið í þann mund sem það var að jafna leikinn. Dómurinn sennilega rangur, þetta var allavega ansi tæpt.

Það var svo Alexandra Jóhannsdóttir sem kom Íslandi í 2-0 snemma í seinni hálfleik þegar hún þrumaði boltanum fyrir utan þýska teiginn og boltinn söng í netinu, glæsilegt skot en þýski markvörðurinn var í miklu brasi í aðdragandanum. Flottur undirbúningur frá Sveindísi.

Íslenska liðið þurfti í kjölfarið að verja markið sitt og gerði liðið það mjög vel. Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði liðsins, bjargaði einu sinni á línu og þá varði Fanney Inga Birkisdóttir í markinu nokkrum sinnum vel.

Það var svo Sveindís sjálf sem innsiglaði sigurinn á 83. mínútu þegar hún nýtti sér mistök í vörn Þýskalands. Hún sýndi mikla yfirvegun og kláraði vel, 3-0 lokatölur.

Algjörlega magnaður leikur íslenska liðsins og einhver merkasti sigur í sögu landsliðsins. 2009, 2013, 2017, 2022 og núna 2025. Ísland er á leiðinni á fimmta mótið í röð. Til hamingju með það stelpur og allir sem koma að liðinu. Það er Sviss næsta sumar!
Athugasemdir
banner
banner