Pep Guardiola þjálfari Manchester City svaraði spurningum á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Þar talaði Guardiola um vandamálin hjá Englandsmeistaraliðinu, sem tapaði níu leikjum, sigraði einn og gerði tvö jafntefli á hrikalegum tveggja mánaða kafla fyrir liðið sem hófst 30. október og virðist hafa endað 29. desember.
Síðan Man City lagði Leicester að velli 29. desember hefur liðið unnið þægilega sigra á heimavelli gegn West Ham og Salford City en slagurinn gegn Brentford annað kvöld gæti reynst erfiður.
„Meiðslavandræðin hafa verið hrikaleg. Við höfum verið fínir sóknarlega en varnarleikurinn hefur ekki verið nægilega góður allt þetta tímabil," sagði Guardiola.
„Ef við værum ekki með svona mikið af meiðslum þá værum við ekki að taka þátt í janúarglugganum. Við værum heldur ekki á þessum stað sem við erum á núna. Það er staðreynd."
Man City er talið vera að ganga frá kaupum á Abdukodir Khusanov frá Lens á næstu dögum og er þá einnig að reyna við Omar Marmoush leikmann Eintracht Frankfurt og Vitor Reis ungan bakvörð Palmeiras. Guardiola neitar þó að tjá sig um leikmenn sem eru ekki samningsbundnir Man City.
„Félagið hefur ekki tilkynnt neitt svo ég veit ekki. Ég veit ekki hvað koma margir til félagsins eða hvenær. Ég bjóst við að halda mínum leikmannahópi þetta tímabil en ég hef ekki getað það vegna meiðsla. Verstu meiðslin eru samt hjá Rodri, hann er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur. Það er mjög erfitt að skipta svona gæðamiklum leikmani úr liðinu.
„Þetta snýst samt ekki eingöngu um Rodri eins og einhverjir vilja halda fram. Helstu vandræðin okkar eru í varnarlínunni og munum við gera okkar besta til að finna lausnir í janúarglugganum og í sumar."
Guardiola sagði einnig að Man City hafi skoðað að kaupa leikmenn síðasta sumar en hætt við eftir að hafa ráðfært sig við þjálfarann. Pep taldi hópinn vera nægilega breiðan og góðan undir lok sumarsins en hefur skjátlast.
„Við fengum Savinho og Gündogan til félagsins og ég hélt að það væri nóg, en ég bjóst ekki við öllum þessum meiðslum. Við erum með virkilega góðan leikmannahóp en þessi meiðsli hafa reynst okkur ofviða."
Athugasemdir