Í uppbótartíma í leik KA og FH fékk Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, gult spjald. Það spjald fékk hann eftir orðaskipti milli hans og Hallgríms Jónassonar þjálfara KA.
Lestu um leikinn: KA 2 - 3 FH
Gula spjaldið fór á loft eftir að Baldur Kári Helgason kom inn á sem varamaður í uppbótartíma.
Mögulega var Hallgrímur ekki sáttur við aðferð FH-inga til að tefja leikinn en í útsendingu Stöð 2 Sport virðist Heimir benda Loga Hrafni Róbertssyni, sem var að fara af velli, að vera ekkert að drífa sig út af. Skömmu áður hljómaði Hallgrímur ekkert sérstaklega sáttur við að FH-ingar kölluðu á Sindra Kristin Ólafsson í markinu að kasta boltanum af velli þegar leikmaður KA lá eftir í stað þess að bíða eftir ákvörðun dómarans.
„Vá hvað þetta er asnalegt að haga sér svona," segir Hallgrímur og heyrist það vel í útsendingunni.
Við þetta snöggreiðist Heimir og segir: „Ertu að fokking djóka þarna? Búinn að rífa kjaft allan leikinn. Ég er ekki búinn að segja orð við þig og svo ertu rífandi kjaft," segir Heimir. Einhver segir svo í bakgrunninum „Grjóthaltu kjafti."
„Heimir Guðjónsson að sturta sér yfir Hallgrím Jónasson," sagði Henry Birgir Gunnarsson sem lýsti leiknum.
Í kjölfarið fór svo dómarinn, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, að hliðarlínunni og spjaldaði Heimi. Þetta var annað spjaldið á Heimi í sumar því hann fékk einnig spjald gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni. Heimir sást svo ræða við Vilhjálm eftir leikinn.
Athugasemdir