Liverpool er skrefi nær því að vinna Englandsmeistaratitilinn í 20. sinn eftir að liðið lagði West Ham að velli, 2-1, á Anfield í dag. Chelsea tapaði þá stigum gegn Ipswich á meðan Úlfarnir unnu óvæntan 4-2 sigur á Tottenham.
Jafntefli Arsenal gegn Brentford í gær þýddi það að Liverpool gat náð þrettán stiga forystu á toppnum með sigri á West Ham og létu Liverpool-menn það tækifæri ekki renna sér úr greipum.
Luis Díaz skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu. Mohamed Salah fékk langan bolta úti hægra megin, snéri af sér Oliver Scarles áður en hann kom með hárfína utanfótarsendingu inn á teiginn og á Díaz sem skoraði.
Liverpool leit mjög vel út í fyrri hálfleiknum en West Ham fór að finna taktinn betur eftir markið. Mohammed Kudus átti skot sem Alisson varði í slá og rétt áður sá hann við Carlos Soler í einn á móti einum.
Alexis Mac Allister var ekki langt frá því að tvöfalda forystuna snemma í síðari hálfleik en Alphonse Areola gerði vel í að verja aukaspyrnu hans í þverslá.
Þegar líða fór á síðari hálfleikinn fór West Ham að ógna en Alisson kom Liverpool til bjargar í tvígang á nokkrum mínútum. Fyrst varði hann með bringunni frá Jarrod Bowen sem slapp í gegn og svo aftur frá Mohammed Kudus sem skaut úr þröngu færi.
Virkilega slakur kafli hjá Liverpool og kom því ekki á óvart þegar West Ham skoraði jöfnunarmark á 86. mínútu. Aaron Wan-Bissaka kom með fyrirgjöfina frá vinstri og vantaði allan talanda milli Virgil van Dijk og Andy Robertson.
Van Dijk ætlaði að pota boltanum frá en á sama tíma kom Robertson á ferðinni með það sama í huga. Van Dijk náði að pota honum, en þó ekki lengra en í Robertson sem setti boltann í eigið net.
Þessi klaufagangur kom ekki að sök. Liverpool fékk hornspyrnu nokkrum mínútum síðar og skoraði þar Van Dijk með skalla úr miðjum teignum og tryggði Liverpool sigurinn. Það á nokkuð vel við en á næstu dögum mun Liverpool tilkynna nýjan samning við hollenska varnarmanninn.
Lokatölur á Anfield, 2-1, heimamönnum í vil sem eru með 13 stiga forystu á toppnum þegar sex umferðir eru eftir. Liverpool þarf aðeins tvo sigra til að tryggja titilinn, en næstu leikir liðsins er útileikur gegn Leicester og síðan heimaleikur gegn Tottenham.
Svekkjandi jafntefli á Stamford Bridge og fallbaráttan nánast ráðin
Fallbaráttan í ensku úrvalsdeildinni er svo gott sem ráðin eftir að Ipswich og Chelsea gerðu 2-2 jafntefli og Wolves vann 4-2 sigur á Tottenham.
Leikurinn í dag var mikilvægur fyrir Ipswich og sást það strax frá fyrstu mínútu.
Ipswich komst í 2-0 á fyrsta hálftímanum. Julio Enciso skoraði á 19. mínútu eftir stoðsendingu Ben Johnson og tólf mínútum síðar þakkaði Enciso fyrir sig með því að leggja upp á Johnson sem stangaði boltann yfir Robert Sanchez í markinu.
Chelsea fékk draumabyrjun í síðari hálfleiknum. Noni Madueke kom boltanum fyrir markið og voru þeir Marc Cucurella og Axel Tuanzebe báðir í boltanum. Af endursýningu að dæma virtist boltinn fara af Tuanzebe í eigið net.
Jadon Sancho kom inn á fyrir Madueke á 68. mínútu og rúmum tíu mínútum síðar skoraði hann jöfnunarmarkið eftir stoðsendingu frá Cole Palmer.
Ótrúlega svekkjandi fyrir Ipswich sem hafði átt flottan leik en 2-2 jafntefli niðurstaðan og Chelsea komið upp í 5. sæti, sem gefur þáttökurétt í Meistaradeildina á næsta tímabili. Ipswich er á meðan í 18. sæti og nú 14 stigum frá öruggu sæti þegar aðeins 18 stig eru eftir í pottinum.
Úlfarnir eru þá gott sem búnir að bjarga sér frá falli eftir frábæran 4-2 sigur á Tottenham á Molineux.
Varnarleikur Tottenham var í algeru rugli. Guglielmo Vicario kýldi heldur auðvelda aukaspyrnu út í teiginn á Rayan Ait-Nouri sem hamraði boltann viðstöðulaust á lofti og efst í hægra hornið.
Ef fyrsta markið var slakt hjá Tottenham hvað er þá hægt að segja um annað markið?
Tottenham hafði átt fínan kafla og skapað sér nokkur góð færi, en síðan kom klaufalegt högg í bakið á þeim. Ait-Nouri kom háum bolta inn á teiginn sem var skallaður í átt að marki. Vicario skutlaði sér á boltann en blakaði honum einhvern veginn í Djed Spence og þaðan skoppaði boltinn í netið.
Gestirnir komu til baka á 59. mínútu er Mathys Tel stýrði fyrirgjöf Brennan Johnson í netið en fimm mínútum síðar gerði Jörgen Strand Larsen þriðja mark Wolves.
Varamaðurinn Richarlison kom inn á þegar fimmtán mínútur voru eftir og tókst að minnka muninn aftur niður í eitt mark. Landi hans og félagi í landsliðinu, Matheus Cunha, kom einnig inn af bekknum hjá Wolves og skoraði fjórða mark liðsins aðeins mínútu síðar og tryggði liðinu sigurinn.
Wolves eru fjórtán stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið var í fallbaráttu allt tímabilið en allt stefnir í að það verði áfram í deild þeirra bestu á næsta tímabili.
Chelsea 2 - 2 Ipswich Town
0-1 Julio Enciso ('19 )
0-2 Ben Johnson ('31 )
1-2 Axel Tuanzebe ('46 , sjálfsmark)
2-2 Jadon Sancho ('79 )
Liverpool 2 - 1 West Ham
1-0 Luis Diaz ('18 )
1-1 Andrew Robertson ('86 , sjálfsmark)
2-1 Virgil van Dijk ('89 )
Wolves 4 - 2 Tottenham
1-0 Rayan Ait Nouri ('2 )
2-0 Djed Spence ('38 , sjálfsmark)
2-1 Mathys Tel ('59 )
3-1 Jorgen Strand Larsen ('64 )
3-2 Richarlison ('85 )
4-2 Matheus Cunha ('86 )
Stöðutaflan
England
Premier league - karlar

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Liverpool | 32 | 23 | 7 | 2 | 74 | 31 | +43 | 76 |
2 | Arsenal | 32 | 17 | 12 | 3 | 57 | 27 | +30 | 63 |
3 | Nott. Forest | 32 | 17 | 6 | 9 | 51 | 38 | +13 | 57 |
4 | Newcastle | 31 | 17 | 5 | 9 | 56 | 40 | +16 | 56 |
5 | Man City | 32 | 16 | 7 | 9 | 62 | 42 | +20 | 55 |
6 | Chelsea | 32 | 15 | 9 | 8 | 56 | 39 | +17 | 54 |
7 | Aston Villa | 32 | 15 | 9 | 8 | 49 | 46 | +3 | 54 |
8 | Bournemouth | 32 | 13 | 9 | 10 | 52 | 40 | +12 | 48 |
9 | Fulham | 32 | 13 | 9 | 10 | 47 | 43 | +4 | 48 |
10 | Brighton | 32 | 12 | 12 | 8 | 51 | 49 | +2 | 48 |
11 | Brentford | 32 | 12 | 7 | 13 | 52 | 48 | +4 | 43 |
12 | Crystal Palace | 31 | 11 | 10 | 10 | 41 | 40 | +1 | 43 |
13 | Everton | 32 | 8 | 14 | 10 | 34 | 38 | -4 | 38 |
14 | Man Utd | 32 | 10 | 8 | 14 | 38 | 45 | -7 | 38 |
15 | Tottenham | 32 | 11 | 4 | 17 | 60 | 49 | +11 | 37 |
16 | Wolves | 32 | 10 | 5 | 17 | 47 | 61 | -14 | 35 |
17 | West Ham | 32 | 9 | 8 | 15 | 36 | 54 | -18 | 35 |
18 | Ipswich Town | 32 | 4 | 9 | 19 | 33 | 67 | -34 | 21 |
19 | Leicester | 32 | 4 | 6 | 22 | 27 | 72 | -45 | 18 |
20 | Southampton | 32 | 2 | 4 | 26 | 23 | 77 | -54 | 10 |
Athugasemdir