Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   fös 14. febrúar 2020 10:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Heimir Guðjóns hefði farið að hlæja
Garðar Örn Hinriksson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Garðar Örn Hinriksson fyrrum dómari.
Garðar Örn Hinriksson fyrrum dómari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dan Gosling kvartaði undan ummælum Jon Moss
Dan Gosling kvartaði undan ummælum Jon Moss
Mynd: Getty Images
Jon Moss og José Mourinho
Jon Moss og José Mourinho
Mynd: Getty Images
Ummæli Jon Moss knattspyrnudómara í efstu deild Englands hafa verið töluvert í umræðunni. Kannski ekki hér á klakanum en töluvert í landi konungsfjölskyldunnar. Hinn viðkvæmi leikmaður Bournemouth, Dan Gosling, var ekki sáttur með Moss sem dæmdi tapleik liðsins gegn Sheffield United á dögunum. Sakaði Gosling dómarann um að hafa sýnt sér mikla vanvirðingu þegar Moss sagði við hann, “Ég er ekki ástæðan fyrir því að þið eruð í fallsæti, þið eruð það!” Gosling fór mikinn í viðtali eftir leikinn þar sem hann sagði meðal annars: “„Mér fannst hann sýna mikla vanvirðingu með því sem hann sagði. Mér fannst hann vera til skammar. Dómarar töluðu um virðingu fyrir tímabilið en það var engin virðing hjá Jon Moss á sunnudaginn."

Þetta er ekki í fyrsta sinn og langt í frá að vera í síðasta skiptið þar sem leikmaður grætur undan dómara. Og ég reikna með því að leikmaðurinn sé alsaklaus sjálfur. Hann hefur væntanlega ekkert sagt sem verðskuldaði þessi viðbrögð Moss dómara. Eða hvað? Ég leyfi mér að segja það að það eru 100% líkur á því að leikmaðurinn sári sagði eitthvað á undan sem varð til þess að dómarinn svaraði leikmanninum með þessum hætti. Sjálfur dæmdi ég í 27 ár og veit allt um þetta. Hér á árum áður var hægt að svara leikmönnum. Oft komu upp skipti þar sem leikmaður drullaði yfir mig og ég svaraði honum í sömu mynt. Málið dautt og allir sáttir.

Ég man alltaf eftir einum góðum leikmanni frá Skaganum sem sagði eitt sinn við mig í leik (kannski átti ég það skilið) að ég væri ömurlegur dómari og að mín frammistaða væri sú versta sem hann hefði séð. Ég svaraði í sömu mynt og sagði honum að líta í eigin barm. Hann væri ekkert skárri sjálfur. Eftir leik tókumst við brosandi í hendur og málið dautt. Næsti leikur!
Leikmenn sem fara með svona mál lengra en þau ættu að fara eru viðkvæm blóm sem einungis eru að breiða yfir eigin skitu. Fyrir tveimur áratugum hefði þetta aldrei gerst. Roy Keane eða Heimir Guðjóns hefðu aldrei farið í fjölmiðla og grátið svona undan dómurum. Þeir hefðu farið að hlæja að þér hefðir þú sagt eitthvað á móti. Það sem gerist innan vallar á að vera þar áfram en það er víst ekki hægt að ætlast til þess af þessari blessuðu bómullarkynslóð sem núna er að alast upp (leikmenn fæddir 1985 og síðar).

Ég sjálfur hef lent í tveimur atvikum sem fóru lengra en þau áttu að fara. Ég viðurkenni það þó að það sem ég sagði var í grófara laginu en það hefði verið að hægt að laga strax eftir leik. Leikmenn voru þó ekki á sama máli og ég. Fyrra atvikið átti sér stað í leik ÍBV – Keflavíkur þar sem ÍBV var að rústa slöku liði Keflavíkur í Vestmannaeyjum. Staðan er 3 eða 4 mörk fyrir ÍBV gegn engu frá Keflavík þegar einn Keflvíkingurinn hreinlega missir “kúlið” og gjörsamlega valtar yfir mig eftir að hafa verið ósáttur við að fá ekki aukaspyrnu. Ég man ekki hvað hann sagði en ég svaraði á móti, “það er ekki mér að kenna að þið spilið eins og ræflar”. Eitthvað sem ég hefði ekki átt að segja og eitthvað sem ég dauðsá strax eftir að segja. Ég fékk aldrei tækifæri á því að biðjast afsökunar á því. Hvorki þá né strax eftir leik því Keflvíkingarnir voru brjálaðir. Fyrst þeir voru að skíttapa, best að taka dómarann með sér í fallinu. Þarna átti að breiða yfir eigin skít og það tókst held ég ágætlega hjá þeim. Enginn var að spá í úrslitin lengur. Það sem skipti mestu máli var hvernig dómarinn hagaði sér. Nokkrum vikum síðar fóru Fylkismenn til Keflavíkur þar sem Keflvíkingarnir rúlluðu yfir þá appelsínugulu. Undir lok leiksins spyr einn Fylkismaðurinn mig að því hvort mér finndist þeir (þ.e. Fylkir) spila eins og ræflar. Ég sagði strax já og hlógum við báðir að því. Ég ætla samt að nota tækifærið hér og nú og biðjast afsökunar á þessum ummælum mínum. Þau voru gróf en hefði mátt laga strax eftir leik. Ég fékk aldrei tækifærið til þess. Mér hefur alltaf þrátt fyrir þessi ummæli mín þótt vænt um Keflavík.

Seinna atvikið gerðist einnig í Vestmannaeyjum. Nokkrum árum eftir Keflavíkurleikinn komu KR-ingar í heimsókn. Ég fékk ákveðinn leikmann KR strax í bakið á mér og þannig var það í heilar 90 mínútur. Þessi leikmaður er þekkt “cry-baby” og kvartaði hann og kveinaði allan leikinn. Ég sýndi honum mikla þolinmæði en gafst upp undir lok leiksins og sagði honum að fara í rassgat. Þarna fékk ég nóg. Hann var búinn að vera einstaklega leiðinlegur sem varð til þess að hann fékk þetta beint í andlitið. Ég sá strax eftir því að hafa sagt þetta en nei… best að fara lengra með þetta og láta dómarann finna fyrir því. Áður en ég veit af og næ að biðjast afsökunar eru ummæli mín komin í fjölmiðla og það áður en ég næ að stíga um borð í Herjólf! Af hverju? Jú, KR tapaði leik sem þeir gátu ekkert í en þarna fengu þeir tækifæri á að breiða yfir eigin skitu og nýttu sér það. Mér þykir líka vænt um KR þrátt fyrir þetta.

Chris Sutton, fyrrum leikmaður Blackburn Rovers og Chelsea meðal annars, tjáir sig um þetta mál og segir í raun það sem ég er að segja. “Það að Bournemouth skuli kvarta út af ummælum Jon Moss gerir þá að engu öðru en snjókornum (e. snowflake). Mega dómarar ekkert segja? Þurfa þeir bara að taka við öllu án þess að segja eitthvað til baka? Ég skal segja ykkur sögu. Þann 31. október 2009 var ég þjálfari hjá Lincoln og við vorum 3-0 undir gegn Morecambe. Ég hraunaði yfir línuvörð sem dæmdi rangstöðu. Ég er að segja sannleikann, hann svaraði mér: 'Kannski er ég ömurlegur línuvörður, en ég er ekki eins ömurlegur og liðið þitt.” Ég fór aftur í varamannaskýlið og hló inni í mér. Hann hafði rétt fyrir sér."
Ef þið viljið ekki og getið ekki tekið við smá skít, ekki þá kasta skít sjálfir!
Athugasemdir
banner
banner