Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   þri 14. júní 2022 15:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Blikar endurheimta þrjá en missa líka út þrjá fyrir leikinn gegn Val
Viktor Karl snýr aftur eftir meiðsli
Viktor Karl snýr aftur eftir meiðsli
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Jason Daði spilaði sinn fyrsta landsleik
Jason Daði spilaði sinn fyrsta landsleik
Mynd: Getty Images
Elfar Freyr orðinn klár í slaginn
Elfar Freyr orðinn klár í slaginn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í lokaleik Breiðabliks fyrir landsleikjahlé - gegn Leikni í áttundu umferð Bestu deildarinnar - vantaði þá Gísla Eyjólfsson og Viktor Karl Einarsson.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, staðfesti við Fótbolta.net í dag að þeir Gísli og Viktor Karl væru orðnir klárir í slaginn og yrðu með gegn Val í níundu umferð Bestu á fimmtudag.

„Andri Rafn er meiddur, er stífur aftan í læri og Sölvi Snær er ennþá meiddur. En allir aðrir eru klárir: Elli Helga er klár, Gísli er klár og Viktor er klár," sagði Óskar.

„Já, mér sýnist allt stefna í að Elli verði í hóp nema það komi eitthvað bakslag. Það lítur mjög vel út með hann."

Aðrir verða að taka við keflinu
Ísak Snær Þorvaldsson tekur út leikbann í leiknum á móti Val. Ísak var ónotaður varamaður hjá U21 liðinu á laugardag eftir að hafa fundið fyrir verk í bringu þegar U21 mætti Hvítrússum í síðustu viku. Hvernig er staðan á Ísaki?

„Hann kláraði æfingu í gær og kenndi sér einskis meins, það lítur mjög vel út með hann. Hann var í frábærum höndum hjá landsliðinu og fór í allar þær rannsóknir sem þurfti. Þær komu vel út þannig það lítur allt mjög vel út og ég geri ráð fyrir því að hann verði klár á mánudaginn á móti KA."

Líturu á það sem ákveðna áskorun að þurfa að stilla upp liði þar sem er enginn Ísak Snær? Ísak hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa.

„Nei það er engin áskorun, bara skemmtilegt verkefni. Við höfum áður stillt upp liði án hans, spiluðum fyrri hálfleikinn á móti Val [í bikarnum] án hans. Auðvitað hefur hann verið lykilmaður hjá okkur en það verða aðrir að taka við keflinu á fimmtudaginn."

„Gæti verið erfitt fyrir KSÍ ef þetta er línan"
Omar Sowe er annar leikmaður Breiðabliks sem verður í leikbanni gegn Val. Sowe var dæmdur í tveggja leikja bann eftir að viðskipti hans við Brynjar Hlöðversson, leikmann Leiknis, voru skoðuð á myndbandsupptöku og dæmt eftir henni. Hvernig meturu þetta?

„Ég hef ekkert um þetta að segja, svo einfalt er það."

Gæti það verið erfitt fyrir KSÍ að fylgja þessari línu að hægt sé að dæma út frá myndbandsupptöku?

„Ég myndi halda að þetta gæti verið erfitt fyrir KSÍ ef þetta er línan. En það er ekkert sem ég segi sem getur haft einhver áhrif. Við verðum bara að sætta okkur við niðurstöðuna og halda áfram."

Sjá einnig:
Ósk Breiðabliks um leyfi til að áfrýja niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar hafnað

Gleðin yfir valinu trompar alltaf mögulegt hikst í undirbúningi
Þrír leikmenn Breiðabliks voru kallaðir inn í A-landsliðið fyrir vináttuleikinn gegn San Marínó. Það voru þeir Damir Muminovic, Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson. Setti það undirbúninginn fyrir leikinn gegn Val eitthvað úr skorðum?

„Nei, það gerði það ekki. Þetta var bara mikill heiður fyrir þá og mikill heiður fyrir félagið. Sérstaklega var þetta gaman fyrir Jason Daða að spila fyrsta landsleikinn sinn. Þó það hefði sett eitthvað strik í reikninginn þá trompar alltaf gleðin yfir því að þeir hafi verið valdir í þetta verkefni smá hikst í undirbúningi þegar það er vika í leik. Við erum bara stoltir af þessum leikmönnum," sagði Óskar.

Breiðablik er á toppi Bestu deildarinnar með fullt hús stiga eftir átta umferðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner