Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   lau 14. september 2024 13:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
England: Vítavarslan gjörbreytti leiknum - Brereton Díaz setti leiðinlegt met
Marki De Ligt fagnað.
Marki De Ligt fagnað.
Mynd: Getty Images
Stephens fékk rautt.
Stephens fékk rautt.
Mynd: Getty Images
Southampton 0 - 3 Manchester Utd
0-0 Cameron Archer ('33 , Misnotað víti)
0-1 Matthijs de Ligt ('35 )
0-2 Marcus Rashford ('41 )
0-3 Alejandro Garnacho ('96 )
Rautt spjald: Jack Stephens, Southampton ('79)

Fyrsta leik dagsins og fyrsta leiknum í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar er lokið. Manchester United fór til Southampton og hirti öll þrjú stigin sem í boði voru á St. Mary's.

Leikurinn var nokkuð opinn framan af, heimamenn í Southampton voru öflugri og komu sér í góð færi. Joshua Zirkzee komst einnig í gott færi hjá gestunum en boltinn fór ekki inn.

Eftir um hálftíma leik renndi Diogo Dalot sér og gerðist brotlegur inn á eigin vítateig. Andre Onana kom hónum til bjargar með því að verja vítaspyrnu framherjans Cameron Archer sem kom til Southampton frá Aston Villa í sumar.

Örskömmu síðar kom Matthijs de Ligt United yfir með skallamarki eftir flotta fyrirgjöf frá Bruno Fernandes. Fyrsta mark Hollendingsins fyrir United. Nokkrum mínútum síðar tvöfaldaði Marcus Rashford svo forystuna með flottu skoti frá vítateigshorninu. Í báðum skiptum voru varnarmenn heimamanna sofandi og fengu gestirnir of mikinn tíma til að athafna sig við vítateiginn.

Leikurinn hélst svo í nokkru jafnvægi eftir þetta og sigur United aldrei í hættu. Jack Stephens fékk að líta rauða spjaldið á 79. mínútu fyrir ljóta tæklingu á Alejandro Garnacho og Zirkzee hefði getað skorað þriðja mark United í uppbótartíma en lét Aaron Ramsdale í marki Southampton verja frá sér. United tókst á endanum að skora þriðja markið, það kom á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar varamaðurinn Garnacho setti boltann í netið af stuttu færi eftir laglega sókn gestanna.

Ben Brereton Díaz, leikmaður Southampton, setti í dag virkilega óheppilegt met en hann hefur ekki unnið leik í úrvalsdeildinni í átján tilraunum. Enginn leikmaður hefur þurt að bíða jafnlengi og hann eftir sínum fyrsta sigri í deildinni. Hann lék með Sheffield United seinni hluta síðasta tímabils.

Annar sigur United á tímabilinu staðreynd og liðið því komið með sex stig. Southampton er án stiga eftir fjóra leiki.
Athugasemdir
banner
banner