Markverðirnir Ederson og André Onana mættust í tyrknesku deildinni í dag, á sama degi og Manchester City tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Báðir markverðirnir yfirgáfu Manchester-félögin undir lok sumargluggans til að skipta yfir í tyrknesku deildina. Fenerbahce festi kaup á Ederson á meðan Trabzonspor fékk Onana á lánssamningi.
Paul Onuachu, fyrrum leikmaður Southampton í ensku úrvalsdeildinni, kom boltanum í netið snemma leiks en markið ekki dæmt gilt vegna brots í aðdragandanum eftir athugun í VAR herberginu.
Okay Yokuslu, fyrrum leikmaður West Brom, fékk svo að líta beint rautt spjald á 20. mínútu.
Youssef En-Nesyri, sem gerði garðinn frægan með Sevilla, skoraði eina mark leiksins á 45. mínútu framhjá André Onana.
Fenerbahce var talsvert sterkari aðilinn gegn tíu leikmönnum Trabzonspor en tókst ekki að skora fleiri mörk. Lokatölur 1-0 þökk sé stórleik Onana á milli stanganna, þar sem hann varði 8 marktilraunir af þeim 29 sem bárust í leiknum.
Ederson varði eina skotið sem hann fékk á sig.
Milan Skriniar og Fred voru einnig meðal byrjunarliðsmanna í sterku liði Fenerbahce. Marco Asensio byrjaði á bekknum og var Caglar Söyüncü ónotaður varamaður.
Gaziantep vann þá 2-0 gegn Kocaelispor og Kayserispor gerði 1-1 jafntefli við Göztepe.
Fenerbahce er í öðru sæti tyrknesku deildarinnar með 10 stig eftir 4 umferðir. Trabzonspor er í þriðja sæti með 10 stig eftir 5 umferðir.
Fenerbahce 1 - 0 Trabzonspor
1-0 Youssef En-Nesyri ('45)
Rautt spjald: Okay Yokuslu, Trabzonspor ('20)
Gaziantep 2 - 0 Kocaelispor
Kayserispor 1 - 1 Göztepe
Athugasemdir